150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

þinglýsingalög og skráning og mat fasteigna.

371. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Herra forseti. Ég flyt nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á þinglýsingalögum og lögum um skráningu og mat fasteigna (aflýsingar). Það er kannski rétt í upphafi að rifja upp tilefni þessarar lagasetningar sem er sem sé það að kveða skýrt á um heimild og framkvæmd á aflýsingu eignarhafta með rafrænni færslu. Með 12. gr. laga um breytingu á þinglýsingalögum, lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 151/2018, var gerð sú breyting á 2. mgr. 39. gr. þinglýsingalaga, nr. 39/1978, að þinglýstum rétthafa væri heimilt að þinglýsa með rafrænni færslu staðfestingu um aflýsingu skjals ef skráning kröfuhafa hefði áður verið leiðrétt. Var þar jafnframt vísað til ákvæðis til bráðabirgða II í lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Þar var hins vegar ekki kveðið skýrt á um að heimilt væri að aflýsa eignarhafti með rafrænni færslu heldur var miðað við að rafræn aflýsing yrði á grundvelli rafrænnar þinglýsingar á yfirlýsingu. Þá var ranglega vísað til ákvæðis til bráðabirgða í lögum um aukatekjur ríkissjóðs í stað ákvæðis til bráðabirgða í þinglýsingalögum. Með frumvarpi þessu er lagt til að 39. gr. þinglýsingalaga verði breytt þannig að skýrt verði kveðið á um heimild til að aflýsa eignarhafti með rafrænni færslu. Með því er lögð áhersla á að fyrri framkvæmd aflýsingar standi óbreytt en að rétthöfum standi einnig til boða aflýsing með rafrænni færslu. Auk framangreinds er lagt til að felld verði niður tilvísun til laga um aukatekjur ríkissjóðs. Þá er lagt til að ráðherra fái heimild til að fjalla nánar um framkvæmd og tæknilegar kröfur til aflýsingar með rafrænni færslu í reglugerð á sama hátt og um þinglýsingu með rafrænni færslu.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Guðmund Bjarna Ragnarsson frá dómsmálaráðuneytinu. Með frumvarpinu eru sem sagt lagðar til breytingar á þinglýsingalögum og lögum um skráningu og mat fasteigna. Breytingarnar eru lagðar fram í því skyni að tryggja að rafrænar þinglýsingar geti hafist í samræmi við fyrirliggjandi áætlun í þessu efni.

Nefndin hefur engar efnislegar athugasemdir við frumvarpið en leggur til smávægilegar breytingar tæknilegs eðlis. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. Í stað orðanna „í lögum um aukatekjur ríkissjóðs“ í b-lið 3. gr. komi: samanber ákvæði til bráðabirgða II í lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

2. Efnismálsgrein 4. gr. orðist svo:

Í þeim tilvikum þegar kröfuhafi er ríkissjóður, opinber stofnun, banki, sparisjóður, lífeyrissjóður, tryggingafélag eða verðbréfasjóður ber kröfuhafa ekki, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 24. gr., að greiða gjald fyrir vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabók ef fyrirspurnin er nauðsynleg og í beinum tengslum við leiðréttingu á skráningu kröfuhafa og fyrir liggur þjónustusamningur við Þjóðskrá Íslands.

Sá sem hér stendur var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifaði undir þetta álit samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis. Undir þetta nefndarálit rita sem sagt sá sem hér stendur, Páll Magnússon, Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Ármannsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Jón Steindór Valdimarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Þórarinn Ingi Pétursson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.