150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

sviðslistir.

276. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um sviðslistir. Við meðferð málsins í nefndinni var aðallega fjallað um efni 17. og 18. gr. frumvarpsins, auk þess sem tillögur bárust frá nokkrum umsagnaraðilum að breyttu orðalagi ákvæða til áhersluauka og skýringar. Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir gagnvart tilkomu heildarlaga um sviðslistir og um efni frumvarpsins.

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að betur færi á því að orðaröð í 2. og 9. gr. frumvarpsins, þar sem fjallað er um hlutverk Þjóðleikhússins og Íslenska dansflokksins, yrði breytt á þann veg að fyrst yrði tíunduð starfsemi Þjóðleikhússins og dansflokksins og síðan yrði hlutverk þeirra um að glæða áhuga landsmanna tiltekið. Nefndin tekur undir þessar tillögur og telur eðlilegt að meiri áhersla verði lögð á listrænt hlutverk þeirra. Nefndin leggur jafnframt til að sambærilegar breytingar verði gerðar á 19. gr. þar sem fjallað er um óperustarfsemi.

Þá kom fram í umsögnum nokkurra aðila að orðalag 3. gr. frumvarpsins, um leikferðir sem Þjóðleikhúsið stendur að, hefði verið betra í sambærilegu ákvæði í leiklistarlögum. Í því ákvæði væri skýrt kveðið á um að með leikferðum væri bæði átt við ferðir erlendis sem og komu erlendra listamanna hingað til lands. Nefndin tekur undir þau sjónarmið að orðalag eldra ákvæðis henti betur til að tryggja framgöngu íslenskra sviðslista í alþjóðasamfélaginu og leggur til að ákvæðinu verði breytt á þann veg.

Í umsögnum um frumvarpið var bent á að nauðsynlegt væri að þjóðleikhúsráð hefði heimild til að funda án þjóðleikhússtjóra, t.d. þegar farið væri yfir umsóknir um það embætti. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og leggur til að síðasta málslið 2. mgr. 4. gr. verði breytt á þann veg að þjóðleikhússtjóri sitji að jafnaði fundi þjóðleikhúsráðs.

Á fundum nefndarinnar var fjallað um hlutverk sviðslistasjóðs en í 17. gr. frumvarpsins er lagt til að sjóðnum verði skipt í tvær deildir, deild atvinnuhópa og deild áhugahópa í sviðslistum. Fyrir nefndinni kom fram að mikill einhugur ríkir meðal umsagnaraðila um að skilja áfram á milli styrkveitinga til atvinnu- og áhugahópa þvert á efni frumvarpsins þar sem hagsmunir beggja hópa færu betur í núverandi kerfi. Þannig væru gjörólíkar forsendur fyrir úthlutun til hópanna. Bandalag íslenskra leikfélaga, sem í greinargerð er ranglega nefnt Félag íslenskra leikfélaga, er hópur áhugafólks sem telur núverandi fyrirkomulag hafa gefist vel en það felst í því að félagið fær umsóknir frá félagsmönnum sínum og gerir tillögur um styrkveitingar til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Félagið telur að breytt fyrirkomulag myndi hafa skerðingar á styrkjum í för með sér, m.a. þar sem það er ekki aðili að Sviðslistasambandi Íslands og hafi því hvorki ítök í sviðslistaráði né sviðslistasjóði. Nefndin telur í því ljósi að báðir hóparnir sem hafi hagsmuni af efni ákvæðisins séu ósamþykkir því að rétt sé að leggja til að greininni verði breytt á þann veg að aðeins atvinnuhópar fái styrkveitingar úr sviðslistasjóði og að núverandi fyrirkomulag við úthlutanir til áhugahópa verði óbreytt.

Á fundum nefndarinnar var fjallað um 18. gr. frumvarpsins en þar er lagt til að ráðherra verði heimilt að setja á fót kynningarmiðstöð sviðslista. Umsagnaraðilar voru sammála um mikilvægi þess að koma upp kynningarmiðstöð sviðslista en gagnrýnt var að ekki væri kveðið á um skyldu til að setja slíka miðstöð á fót heldur ráðherra einungis fengin heimild til þess. Mörg sjónarmið voru reifuð mikilvægi slíkrar miðstöðvar til stuðnings en sérstaklega var lögð áhersla á þau alþjóðlegu tækifæri sem sviðslistafólk hefði farið á mis við vegna skorts á stuðningi við kynningarstarf og útrás sviðslista. Nefndin tekur undir að tímabært sé að setja á fót kynningarmiðstöð sviðslista, ekki síst í ljósi þess menningarlega og fjárhagslega ávinnings sem slíkt starf hefur. Nefndin leggur til að kveðið verði á um stofnun miðstöðvarinnar með formlegum hætti og leggur jafnframt áherslu á að tryggja skuli fjármagn til reksturs slíkrar miðstöðvar. Mikilvægt sé að gera sviðslistafólki kleift að iðka alþjóðlegt samstarf, bæði til að auðga list hérlendis og til að auka veg og virðingu íslenskrar sviðslistar á alþjóðavísu.

Til viðbótar við þær breytingar sem hafa verið útskýrðar í nefndaráliti þessu eru gerðar nokkrar breytingar lagatæknilegs eðlis. Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið skrifa Páll Magnússon formaður, Þórarinn Ingi Pétursson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Ármannsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir og Guðmundur Andri Thorsson sem var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsregla fyrir fastanefndir Alþingis.