150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara.

22. mál
[17:37]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég óska hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni til hamingju með að 15 ára þrautagöngu er kannski, hugsanlega og mögulega að ljúka með þessari góðu þingsályktunartillögu. Þegar málefni aldraðra eru sett á dagskrá er ástæða til að bregðast við. Þetta er málaflokkur sem snertir okkur öll með ýmsum hætti og ef við erum heppin snertir þetta okkur öll um síðir með sama hætti, að við verðum gömul.

Öldruðum, 67 ára og eldri, mun fjölga gífurlega á næstu árum. Hagstofan spáir því að gera megi ráð fyrir um 61% aukningu í þessum aldurshópi næstu 15 árin sem fer því úr rúmlega 42.000 í kannski 68.000. Undir þetta verður samfélagið að búa sig. Í þessu felast mörg tækifæri en þarna eru líka einhverjar keldur sem við getum varast og ættum að varast með því að búa okkur vel undir fjölgunina, vera meðvituð og hafa stefnu í sem flestum málum sem að þessu lúta.

Við erum hér að fjalla um mikilvægt og alvarlegt málefni, þunglyndi meðal eldri borgara, sjúkdóm sem kannski snertir 15.000–20.000 manns á Íslandi, eins og fram kom í máli hv. 1. flutningsmanns þessarar tillögu sem ég er svo lánsamur að fá að vera með á. Því má telja öruggt að fólk, margt hvert, beri þetta mein og þennan sjúkdóm í hljóði og leiti ekki lausna. Eins og fram kom í máli 1. flutningsmanns umlykur einmanaleiki líf fólks. Það hefur ekki endilega frumkvæði að því að leita sér aðstoðar og ef það hefur ekki þeim mun sterkari félagslega umgjörð um sig endar það oft með því að fólk hverfur okkur sjónum endanlega og gefst upp. Ágæt og margvísleg meðferðarúrræði eru innan seilingar en á Íslandi styðjumst við einkum og í ríkustum mæli við lyfjameðferð. Fleiri lausnir eru þó til og þær eru nýttar í vaxandi mæli.

Virðulegur forseti. Á árinu 2014 gaf samanburður á sölutölum þunglyndislyfja milli Norðurlandanna til kynna að Íslendingar noti 35–50% meira af þunglyndislyfjum en frændþjóðirnar. Sá munur liggur ekki í að ávísað magn sé hærra á hvern notanda hérlendis heldur að það eru fleiri notendur. Þegar notkun þunglyndislyfja er skoðuð nánar eftir aldurshópum og árum má sjá að notkunin eykst með hækkandi aldri og er mest á meðal fólks sem er komið yfir sjötugt. Þunglyndi meðal aldraðra er talsvert algengt en rannsóknir hafa sýnt að 17–30% aldraðra upplifa þunglyndiseinkenni. Þetta hlutfall er jafnvel hærra á meðal aldraðra sem dveljast á sjúkrahúsum eða á hjúkrunarheimilum, alveg upp í 40%. Þessi aldurstengda aukning á notkun þunglyndislyfja hérlendis er því í takt við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum þrátt fyrir að fjöldi notenda hérlendis sé meiri. Töluverða aukningu má sjá í þunglyndislyfjanotkun hjá elstu aldurshópunum, yfir áttrætt, sem skoðað var á árabilinu 2010–2012. Tölur víða á Vesturlöndum sýna að yfir 40% allrar lyfjanotkunar eru hjá öldruðum. Þeir taka mun fleiri lyf að meðaltali en þeir sem eru yngri.

Samkvæmt einni af rannsóknum Hjartaverndar tóku aldraðir í heimahúsum að jafnaði fjögur til fimm ávísuð lyf og notkunin er heldur meiri meðal kvenna þó að karlar séu líka drjúgir við lyfin. Notkunin er enn meiri á hjúkrunarheimilum en samkvæmt nýlegri úttekt, eða ekki svo gamalli, er meðalnotkun á íslenskum hjúkrunarheimilum fleiri en níu lyf á hvern íbúa. Alvarlegar hliðarverkanir lyfja meðal aldraðra eru vaxandi vandamál og kannski líka einhver lyfjaávísun sem ekki passar.

Ég ætla ekki að hætta mér út í lyfjafræði að verulegu leyti en heilbrigðisstarfsfólk veltir mjög vöngum yfir því og spyr gjarnan hvort byltur, minnkuð hreyfifærni, vitræn skerðing, þvagleki og þyngdartap séu jafnvel tilkomin vegna hliðarverkana lyfja. Oft vill gleymast að hliðarverkanir lyfja eða það að lyf virka ekki sem skyldi er jafnvel talið vera að baki þriðjungi sjúkrahúsinnlagna aldraðra samkvæmt sumum rannsóknum.

Þunglyndi eldri borgara er oft vangreint og vanmeðhöndlað og í áranna rás hefur sennilega brunnið við að rasað hefur verið að greiningu og því slegið föstu að viðkomandi sé með einkenni heilabilunar þegar hann sýnir einkenni sem kannski gætu bent til þess. Þunglyndissjúkdómar eru engu að síður taldir vera áhættuþáttur þegar um heilabilunarsjúkdóma er að ræða. Eftir því sem einkennin um þunglyndi eru erfiðari, því meiri líkur eru á heilabilun að því er talið er. Þess vegna er svo mikilvægt að þeir einstaklingar sem hafa þessi einkenni, hvort sem menn leiða líkur að því að það sé þunglyndi eða heilabilun, komist tímanlega til fagfólks til að fá greiningu og úrlausn við hæfi.

Meðal aldraðra er tíðni alvarlegs þunglyndis talin vera um 1–4% en tíðni þunglyndis sem ekki er af alvarlegum toga á bilinu 4–13%. Norskar rannsóknir hafa bent til þessa og að alvarlegir þunglyndissjúkdómar séu tvöfalt hærri hjá eldra fólki á bilinu 70–85 ára, eins og kom fram hjá flutningsmanni áðan. Þunglyndi meðal fólks með heilabilun er töluvert meira en annarra eldri borgara. Það er auðvitað ástæða til að varpa fram spurningunni um það hvers vegna þunglyndi er algengara meðal aldraðra en annarra. Menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að það séu líklega breyttar kringumstæður hins aldna þegar aldurinn færist yfir okkur, að við þurfum að horfast í augu við það að lífið sé ekki alveg búið en það styttist og færnin ekki eins mikil og hún var þó að við getum gert mikið til að viðhalda henni, þ.e. heilsubrestur er kannski einn af mikilvægustu þáttunum sem ýtt geta undir þunglyndi á efri árum.

Ýmsar aldursbreytingar, t.d. í heila, eru taldar geta ýtt undir einkennin og það sem við köllum oft sálfélagslega þætti, eins og færnitap, missir náinna ættingja, eins og fram kom í ræðu áðan, breytt staða viðkomandi í samfélaginu, viðkomandi er að hverfa af vinnumarkaði, hverfa inn í nýtt félagslegt umhverfi og líka það hversu öflugt félagslega stuðningsnetið er. Þetta eru allt mikilvægir þættir í lífi hvers og eins.

Svo má líka nefna að margir aldraðir neyta og hafa þurft að neyta talsvert mikils af lyfjum. Það getur haft áhrif og kallað í einhverjum tilvikum fram og ýtt undir þunglyndan hug sem þróast getur á verri veg.

Eins og ég drap á áðan benda kannski einhverjar úttektir til þess að allt að 13% þeirra sem búa við þunglyndi séu með vægi einkenni og það sem við getum kallað geðdeyfð. Það eru góðar fréttir því að það er þó auðvelt að vinna með þá þætti. Við eigum góð lyf og ef leitað er til fagfólks má ná undraverðum árangri með þeim. Stór hluti þessa hóps getur líka með einföldum hætti bætt stöðu sína og líðan með breyttum lífsstíl, heilsueflingu, aukinni hreyfingu og styrktarþjálfun. Aukin áhersla er lögð á þessa þætti hvarvetna í heiminum til að bæta almenna líðan. Þessum viðhorfum er líka haldið myndarlega á lofti hérlendis, einn af þeim sem hefur verið í forystusveit á þessu sviði er Janus Guðlaugsson, doktor í íþrótta- og heilsufræðum. Hann segir að rannsóknir bendi til þess að virkur lífsstíll og fjölbreytt þjálfun hafi ótvírætt heilsutengdan ávinning á margan hátt í för með sér og að þjálfunin geti auk þess dregið úr ýmsum áhættuþáttum sem tengjast hækkandi aldri og það á svo sannarlega við um þunglyndi.

Virðulegur forseti. Eins og ég kom inn á í upphafi mun öldruðum fjölga mikið á næstu áratugum á Íslandi. Það er því mikilvægt að vinna markvisst í velferðarmálum á þessu sviði sem miða að því að viðhalda heilbrigði í stað þess að einungis meðhöndla sjúkdóma. Þetta er mun ódýrari og hagkvæmari nálgun að bættri lýðheilsu. Þetta er mat ótal sérfræðinga úr öllum heimshornum. Breskir vísindamenn hafa haldið því fram í nýlegum greiningum að hver króna, eða hver evra eftir atvikum, sem fjárfest er í með heilsutengdum forvörnum skili sér 14-falt til baka. Það er því ástæða til að halda á lofti málefnum þessa framtíðarfólks, eldri borgaranna. Þessum hópi mun vaxa fiskur um hrygg á næstu áratugum. Til að halda þessu málefni á lofti höfum við, þrír þingmenn á Alþingi, lagt fram jafn margar þingsályktunartillögur. Þetta eru Ólafur Þór Gunnarsson og Ásmundur Friðriksson áfram undirrituðum. Þetta eru þingsályktunartillögur sem lúta allar að málefnum aldraðra. Við vonumst til að í tengslum við þá umræðu, sem síðar verður við framlagningu tillagnanna, takist okkur að laða fram umfjöllun um þennan málaflokk sem sannarlega er þörf á.

Þessar tillögur sem við höfum lagt fram eru um brottfall aldurstengdra starfslokareglna, aðgerðaáætlun gegn öldrunarfordómum og úttekt á heilsutengdum forvörnum eldra fólks. Það eru fleiri atriði sem löggjafarþing þarf að velta fyrir sér, búsetumál eldri borgara, hvernig við gerum þeim kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði, eins og við höfum talað svo mikið um í áratugi. Við höfum kannski ekki komist miklu lengra en að taka umræðuna. Við þurfum að gera ráð fyrir því hvernig við sem erum að vaxa úr grasi og verða öldruð getum búið að okkar eigin langleiðina allt lífið. Við státum okkur af því og lofum að byggja fleiri og fleiri hjúkrunarheimili. Á því munum við ekki eiga kost öllu lengur. Það er ekki það sem eldra fólki hugnast endilega, okkur mun ekki endilega hugnast það sjálfum þegar við komumst á þennan stað. Við viljum aðra valkosti, auk þess sem við munum með vaxandi hlutfalli eldri borgara ekki ráða við það fjárhagslega að byggja stofnanir til starfrækslu með sama hætti og við höfum gert undanfarna áratugi.

Virðulegur forseti. Ég hef með þessum orðum lokið máli mínu.