151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[17:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég verð að vera ósammála því að hún taki Dani sem dæmi, ég vil taka Finna. Þó að Danir hafi þetta svona tel ég það ekki réttara, en ég tel Finna vera á nokkuð góðum stað. Ég er eiginlega ánægður með að það kemur fram krafa um að Finnar breyti þessu, en mér sýnist það ekki verða niðurstaðan.

Við eigum að efla fjölmiðla en ég óttast að taka þá alla á ríkisjötuna. Þegar við byrjum að taka eitthvað inn þá bara vex það og verður óstjórnlegt. Ég tel miklu betra að tryggja að þessir styrkir verði ár frá ári og þetta verði varanlegt. RÚV er rekið af ríkisfé og er með auglýsingamarkaðinn. Ég sé ekki að RÚV sparki neitt mjög grimmilega í ríkisstjórn hvers tíma því að þú sparkar ekki í þann sem er að ala þig. Ég óttast að þessir fjölmiðlar fari líka að hugsa: Bíddu, á ég að fara hart fram? Kannski fæ ég þá minna á næsta ári, kannski verður þetta dregið til baka? Við eigum ekki að fara út í þetta. Hvar eigum við þá að hætta?

Við gætum tekið alls konar hluti úti á landi, verslanir eru t.d. að hverfa úr bæjarfélögum og fólk þarf kannski að fara 100 km til að komast út í búð. Af hverju á ríkið ekki að sjá til þess að fólk þurfi ekki að leggja sig í hættu við að fara yfir fjallvegi, og menga og það allt saman, með því að styrkja verslun? Er það kannski það næsta? Ef við byrjum á þessu öllu, hvar hættum við? Ég óttast að við séum að byrja á röngum enda. Við ættum að byrja á því að taka RÚV út af auglýsingamarkaði. Er hæstv. ráðherra ekki sammála mér í því? Er ekki kominn tími til að breyta RÚV, skýra hlutverk þess og láta það vera meira í varðveislu íslenskrar tungu og menningar? Það þarf ekki að vera svona stórt.