151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[17:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það stendur í stjórnarsáttmálanum að ríkisstjórnin ætli að styðja við einkarekna fjölmiðla. Eins og ég nefndi hófst þessi vinna áður en ég varð mennta- og menningarmálaráðherra. Ég vil bara ítreka að við höfum, með okkar færustu sérfræðingum á sviði fjölmiðla, farið mjög gaumgæfilega yfir málið. Ég skil vel þær athugasemdir sem hafa komið fram hér í dag en ég vil líka nefna það, vegna þess að margir hafa haft áhyggjur af því að fjölmiðlar muni þá ekki gagnrýna stjórnmálamenn og muni ekki gagnrýna ríkisvaldið, að síðast í dag var á baksíðu eins fjölmiðilsins mikil gagnrýni á fjölmiðlafrumvarpið.

Ég held að fjölmiðlar muni ekki hika við að gagnrýna það sem við erum að gera hér og ég tek því fagnandi. Þeir eru fjórða valdið og þeir sem eru að skrifa þurfa að rökstyðja það sem þeir gera og við höfum önnur rök og rökstyðjum okkar mál. Ég held að fjölmiðlar hætti ekki að gagnrýna ríkisvaldið, ég held að við sjáum það til að mynda í dag að svo er ekki.

Ég vil leggja mikla áherslu á að málið snýst í mínum huga mikið um tungumálið, aðgengi að því. Við verðum að styrkja alla umgjörð þess. Ég lít á þetta fjölmiðlafrumvarp sem mjög mikilvægan þátt í þeirri vegferð minni sem mennta- og menningarmálaráðherra.