151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

reglubundin og viðvarandi upplýsingaskylda útgefenda verðbréfa og flöggunarskylda.

341. mál
[17:31]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég ætla nú bara að koma hingað upp til að fullvissa mig um að búið sé að breyta þessu frumvarpi frá því sem upphaflega var lagt upp með. Í upphafi var málið þannig að gerðar voru strangari kröfur en gagnsæistilskipunin kveður á um. Mér sýnist að þessu hafi verið breytt. Það komu athugasemdir í samráðsgáttina, minnir mig, þess efnis að hér væri á ferðinni strangara regluverk en gildir á Evrópska efnahagssvæðinu. Ég fagna því að sjálfsögðu ef búið er að breyta þessu. Það er ákaflega mikilvægt, ekki síst núna þegar við erum vonandi að fara inn í viðspyrnu efnahagslífsins vegna veirufaraldursins, að hér gildi sama regluverk þegar kemur að erlendum fjárfestingum í landinu. Þær eru okkur að sjálfsögðu mjög mikilvægar. Erlend fjárfesting er til þess fallin að styrkja efnahagslegar stoðir okkar. Aukin erlend fjárfesting eykur því efnahagslegan þrótt okkar og er auk þess mikilvæg hvað varðar orðstír okkar erlendis þegar kemur að því hvort aðilar vilji fjárfesta hér á landi. Er það þannig, hæstv. ráðherra, að meiningin sé að samræma þetta samkvæmt gagnsæistilskipuninni frá 2004? Vegna þess að þannig var það ekki í upphafi.