152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

ástandið í Úkraínu og áhrifin hér á landi.

[16:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Grimmilegt ofríki Pútíns gagnvart Úkraínu á rætur að rekja til þess að alræðisstjórnin hræðist það mest að sjá lýðræðið dafna handan landamæranna, því að lýðræðisáhrif eru nefnilega smitandi. Þetta er hernaður alræðis gegn lýðræði. Samstaða með Úkraínu er líka samstaða með okkar eigin hagsmunum og okkar gildum. Fáar þjóðir eiga meira undir öðrum í því að verja fullveldi lands síns en við Íslendingar. Að sama skapi eru skyldur okkar til samstöðu meiri en annarra. Vegna alls þessa og mikilla breytinga á alþjóðasamfélaginu á undanförnum árum er rétt að skoða að vinna okkar taki tillit til nokkurra þátta til að verja hagsmuni okkar.

Í fyrsta lagi að við sýnum öflugri samstöðu með bandalagsþjóðum okkar og látum utanríkisráðherra þegar í stað gera áætlun um stóraukna þátttöku Íslands í borgaralegum störfum sem tengjast sameiginlegum verkefnum NATO.

Í öðru lagi að við gerum varnarsamstarfið við Bandaríkin virkara í ljósi nýrrar hættu sem steðjar að öryggi þjóða heims. Utanríkisráðherra óski þegar í stað eftir viðræðum við Bandaríkin um viðbót við varnarsamning landanna þar sem markmiðið verði m.a. að tryggja að varnarsamningurinn taki með ótvíræðum hætti til netárása sem beinast að öryggi Íslands og hvernig virkja eigi síðan samninginn.

Í þriðja lagi eigum við að treysta stöðu Íslands. Til þess að gera það þarf þegar í stað að meta kosti þess að stíga lokaskrefið frá aðild að innri markaði Evrópusambandsins að fullri aðild. Það þarf að horfa til þess að treysta pólitíska stöðu landsins og hagsmuni með því að fá sæti við borðið eins og við gerum í NATO. Utanríkisráðherra sagði nýlega að við fylgdum pólitík ESB. Þá er mikilvægt fyrir okkur að við höfum eitthvað um hana segja. Þetta þarf að meta hið fyrsta því að þunginn á sviði varnar- og öryggismála eykst bara hjá ESB. Viðbrögð okkar við stríðinu í Úkraínu eiga því ekki að einskorðast við daginn í dag. Við þurfum að horfa fram í tímann. Við þurfum að meta stöðu Íslands í nýju ljósi og tryggja framtíðarhagsmuni landsins á öllum sviðum.