152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

félagsleg aðstoð.

56. mál
[17:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil vel tilganginn með þessu máli en ég klóra mér samt í hausnum. Af hverju þarf sá sem á rétt á lífeyri endilega að telja einstakling sem viðkomandi býr með sem einhvern frádrátt frá réttindum sínum, ef þannig má orða það? Má viðkomandi ekki ráða því hverjum hann býr með? Það er spurningin sem ég myndi vilja spyrja. Vissulega lagar þetta frumvarp ákveðinn árafjölda þarna en markmiðið ætti að sjálfsögðu að vera það að leyfa fólki að búa með hverjum sem það vill til að ná því hagræði sem það getur, ef það hefur áhuga á því. Eða bara búið eitt þess vegna, hvernig sem það er. Kerfið okkar, eins og það er, virkar á þann hátt fyrir þó nokkuð marga að það sundrar fólki. Það er mjög skrýtið að kerfið búi til þess háttar möguleika. Ég myndi vilja sjá eitthvað nálægt þessu samþykkt en stroka það bara út að það þurfi að hætta 21 árs eða 24 ára, eða hvernig sem það er þarna, og bara leyfa fólki að fá þau réttindi sem það á sem sjálfstæðir einstaklingar, óháð því með hverjum það kýs að búa.