152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

félagsleg aðstoð.

56. mál
[18:00]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir góða fyrirspurn. Jú, að sjálfsögðu eigum við að fá að ráða því með hverjum við búum. En stóri bróðir segir nei. Ríkisvaldið segir nei. Þú verður að skrá alla sem eru með lögheimili hjá þér svo að við getum farið að skerða greiðslur til þín. Við búum við eitt öflugasta, stórfurðulegasta og andstyggilegasta skerðingarkerfi í öllum heiminum. Um leið og við sjáum að hugsanlega ætti viðkomandi, af því að ríkisvaldið velur það, að geta farið að vinna þá má sá sem heima situr og er öryrki, og hefur haft það bágt allan tímann, hefur í uppvexti viðkomandi einstaklings þurft að hokra allan tímann — nei, þá má ekki koma viðbótarkróna inn á heimilið öðruvísi en að þú sért tekinn í bakaríið. Það er nú þannig, því miður. Og það sem verra er, þetta á líka við um sambúðarmaka. Þetta á líka við ef um er að ræða hjón og annað er öryrki en hitt með þokkalegar tekjur. Þá skalt þú, öryrki góður, átta þig á því að þú verður skertur algerlega og færð ekki nokkurn skapaðan hlut. Þú verður gerður algerlega ósjálfstæður fjárhagslega, frá A til Ö, af því að maki þinn á að sjá um þig. Þú verður að betla af honum til að geta farið í bíó og keypt þér brjóstahaldara eða nýja skó. Og má ég, elskulegi maki, fara í klippingu?

Þetta er líf öryrkjans. Þetta er það kerfi almannatrygginga sem öryrkjum er búið í dag, því miður, og öllum almannatryggingaþegum sem hafa í engin önnur hús að venda en blessuðu almannatryggingarnar, sem við þurfum að fara að taka til rækilegrar uppstokkunar, helst að henda þeim í ruslið. Við þurfum að kveikja í þessum tryggingum núna og byrja algjörlega upp á nýtt.