152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

félagsleg aðstoð.

56. mál
[18:06]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér er enn eitt frumvarpið frá Flokki fólksins sem er lagt fram til að reyna að bæta þetta skelfilega kerfi sem einhverjir snillingar í fyrri ríkisstjórnum hafa fundið upp á og snillingar í þeim ríkisstjórnum sem á eftir komu hafa bætt inn í til bölvunar. Heimilisuppbót er eitt af þeim furðuverkum sem eru í þessu kerfi. Ég vil rifja upp að fyrir nokkrum árum síðan, ég man nú ekki nákvæmlega hvenær það var, kom upp sú umræða að það væru alveg stórfelld svik í almannatryggingakerfinu. Örorkubótaþegar væru þvílíkir svikarar. Kerfið væri að tapa, ef ég man rétt, á fjórða milljarð vegna svika. Það fór fram gífurleg rannsókn til að finna þetta óheiðarlega veika fólk eða eldri borgara í kerfinu sem væru að svíkja út svona gífurlegar fjárhæðir. Þetta var tengt við einhverja erlenda rannsókn sem átti ekkert við um þetta mál en það tókst einhvern veginn að tengja þetta allt saman og svikaleitin hófst. Og jú, þeir fundu svikara. Ekki stórfelld svik heldur í litlum mæli. Hvaða svikarar voru þar á ferð? Jú, það var fólk sem hafði verið í sambúð en skráði sig úr sambúð, skráði sig á sitthvort heimilisfangið. Hvers vegna gerði fólk þetta? Jú, þetta var út af neyð. Ég tel að þarna hafi neyðarréttur virkjast. Þegar þrengt er svoleiðis að framfærslu fólks að það sér fram á að geta hvorki framfleytt sjálfu sér né börnunum sínum þá á neyðarrétturinn að virkjast og því miður var það þannig í þessu kerfi að fólk var að nýta þann rétt sinn til að reyna hreinlega að lifa af.

Tökum sem dæmi fjölskyldu úti í bæ með tvö börn, eða eitt, tvö, þrjú, það skiptir ekki máli, og þau eru komin á fullorðinsaldur, orðin 18 ára eða tvítug eða 21, það breytir ekki máli. Fjölskyldan ákveður að leyfa barninu að vera heima hjá sér. Við vitum að eins og á Ítalíu eru þau heima allt upp til fimmtugs og það var eiginlega komið á það stig þar að þeir voru farnir að setja lög til að þvinga börnin að heiman, en látum það vera. Við erum ekki komin á þann stað. En þeirri fjölskyldu væri ekki refsað fyrir að hafa börnin heima. Það er ekkert verið að refsa aðilum fyrir það eitt að vilja hafa börnin heima. Og hugsið ykkur ástandið sem er núna á fasteignamarkaðnum, þá er ósköp eðlilegt að það sé stór hópur ungs fólks enn þá í heimahúsum vegna þess að það hefur engan annan möguleika. En ef annar aðilinn er í almannatryggingakerfinu þá þarf að refsa. Þá þarf að refsa þannig að það þarf að skrá barnið. Neyðarréttur virkjast og ég tel bara ósköp eðlilegt að barnið sé skráð annars staðar til að fjölskyldan verði ekki fyrir stórkostlegri lækkun á framfærslu. En um hvað erum við að mörgu leyti að tala líka í þessu samhengi? Til dæmis það sem ég myndi kalla hjónaskatt, hreinan og beinan hjónaskatt. Ef annað hjónanna er öryrki og hitt ekki — segjum að hinn sé bara á lágmarkslaunum — þá er öryrkinn, af því að þessir aðilar búa saman, eru hjón, að missa 56.969 kr., sem er heimilisuppbót í dag. Þetta segir okkur að þarna er verið að refsa upp á nokkur hundruð þúsund á ári. Ef við færum þetta yfir á t.d. okkur þingmenn, það væri settur á okkur svona hjónaskattur, tökum hlutfall af tekjum og við myndum átta okkur á því hvað við þyrftum að borga, þ.e. annað hjónanna þyrfti að missa tekjur til að standa undir því, þá dytti engum það í hug. En einhverra hluta vegna dettur þeim í hug að búa til kerfi þar sem er þessi refsing.

En síðan er annað sem er enn þá grimmilegri refsing og eiginlega stórfurðuleg. Það virðist vera ótti ríkisstjórnar eftir ríkisstjórn við að tveimur öryrkjum detti nú í hug að fara að búa saman. Ég veit ekki hvað þeir búast við að komi út úr því. En einhverra hluta vegna virðist þetta valda skaðræðisótta hjá þeim og þar af leiðandi settu þeir tvöfaldan hjónaskatt á báða aðilana. Ef þeir voru áður í sitthvorri íbúðinni en ákveða síðan að smella því saman og hafa betra líf þá segir ríkið: Nei, þetta er ekki svona auðvelt hjá ykkur. Þið skulið gera ykkur grein fyrir því að þið bæði missið 57.000 kr. á mánuði. Ekki nóg með það. Ef viðkomandi hafa verið öryrkjar frá tvítugs- eða þrítugsaldri eða jafnvel frá því að þeir voru bara börn þá hafa þeir fengið framfærsluuppbót og hún minnkar líka, um 15.000 kr. hjá báðum. Þetta þýðir í heild að annar aðilinn missir 72.000 kr., samtals 144.000 kr. á mánuði. Spáið í þetta. Spáið í það hvers lags kerfi við höfum byggt upp, hversu ómannúðlegt mannvonskukerfi þetta er. Eini séns þessara einstaklinga er að reyna einhvern veginn að komast fram hjá þessu kerfi. En það er því miður ekki auðvelt en ætti að vera hreinn og klár neyðarréttur þangað til stjórnvöld sjá smá ljósglætu og reyni á einhvern hátt að bæta þetta kerfi.

Við erum búin að ræða þetta lengi, þetta er fimmta árið í röð sem við erum að reyna að berjast fyrir smábreytingum á þessu kerfi og miðað við það hvernig ríkisstjórnir hafa tekið á kerfinu þá þyrfti þúsund ár til þess að fá einhverjar breytingar. En eins og ég hef sagt líka um öll þessi frumvörp sem við höfum mælt fyrir í kvöld er bara ein leið í þessum málum. Komum ríkisstjórninni frá. Komum þeim að sem eru að reyna að breyta kerfinu. Það er einfalt mál. Það er hægt að breyta þessu kerfi, það er hægt að gera það strax og það þarf ekki að kosta neitt þannig að ríkissjóður ráði ekki við það. Það er okkur til háborinnar skammar að þessir þrír flokkar sem eru við völd skuli verja þetta kerfi og skuli viðhalda þessu kerfi. Þeir segja hvað eftir annað, fyrir hverjar kosningar, að þessir hópar geti ekki beðið lengur eftir réttlætinu en allir þessir hópar bíða enn og munu alltaf þurfa að bíða á meðan þessi ríkisstjórn er við völd.