152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

félagsleg aðstoð.

56. mál
[18:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gríðarlega góða spurningu því að það er einmitt leyndarmálið mikla hér á þingi. Alþingi starfar á þann hátt að hingað inn koma flokkar eftir kosningar. Einhverjir ákveða að rotta sig saman og taka meiri hluta — taka meiri hluta, ég orða þetta viljandi á þann veg — og stjórna dagskrárvaldinu frá a til ö. Það hefur ýmsar afleiðingar. Það þýðir einfaldlega að öll mál sem ekki koma frá þeim meiri hluta, og þá sérstaklega framkvæmdarvaldinu — þau eru bara búin að ákveða að þetta virki þannig — afgreiðir þingið ekki. Þau setja þau mál einfaldlega undir borð og líta ekki einu sinni á þau. Sama hversu góð hugmynd það gæti verið þá er ekki einu sinni reynt að koma málinu í gegn. Ég lagði fram mál á síðasta þingi sem hafði meðflutningsmenn úr öllum flokkum. Þetta var rosalega einföld breyting sem leyfir ungmennum að æfa bogfimi, af því að það er strangt til tekið samkvæmt lögum bannað núna, alla vega að nota boga sem almennt er keppt með. Allir flokkar voru sammála um að þetta væri augljós galli en frumvarpið fór ekki lengra af því að þegar allt kemur til alls er ríkisstjórnin oft að reyna að koma í gegn mjög umdeildum málum og til að koma þeim í gegn reynir hún, þeir sem taka sér meiri hluta, einfaldlega að semja um að koma þeim í gegn með einhverjum smábreytingum sem fólk sættir sig við (Forseti hringir.) gegn því þá að sleppa einhverjum þingmannamálum í atkvæðagreiðslu. Það skiptir ekki máli (Forseti hringir.) hvort það eru góð mál eða ekki heldur bara hvað fólk velur. Þá eru þetta yfirleitt eitt, tvö mál á þingflokk, (Forseti hringir.) kvótinn. Við erum með kvótakerfi.