153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

dagskrártillaga.

[13:29]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við höfum svolítið verið að ræða efni málsins í þessari umræðu og ég held að ég sé nú ekki að segja neinum fréttir þegar ég segi að ég er andvígur efni málsins, en mér finnst það nú ekkert aðalatriði í dag. Það hefur jú vissulega komið fram að það hafi komið 17 umsagnir, allar neikvæðar nema frá dómsmálaráðuneyti Sjálfstæðisflokksins og meiri hlutinn ákveður að trúa því umfram Rauða krossinn á Íslandi og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og ýmsa aðra sérfræðinga. Látum það liggja milli hluta. Látum liggja á milli hluta að ekki hafi verið aðgætt að þetta stangaðist ekki á við skuldbindingar varðandi mannréttindi. Látum það liggja milli hluta. Það snýst einfaldlega um það, virðulegur forseti, að þótt Bryndísi Haraldsdóttur, hv. formanni allsherjar- og menntamálanefndar, finnist vera kominn tími til að ræða þetta mál þá er staðreynd málsins einfaldlega sú að í dag er 9. desember og það er bara ekki tími til að ræða þetta mál. Þó að það sé kannski kominn tími til þess að einhverra mati þá eigum við ekkert (Forseti hringir.) dagana á dagatalinu til þess að gera það án þess að tefla í tvísýnu fjárlögum, alls konar dagsetningarmálum, eingreiðslu til öryrkja. Það er ótrúlega óábyrgt af stjórnarmeirihlutanum (Forseti hringir.) að ganga fram með þessum hætti, ofboðslega óábyrgt gagnvart ríkisfjármálum, (Forseti hringir.) ósanngjarnt og ómannúðlegt gagnvart öryrkjunum sem bíða eftir eingreiðslunni og bara ótrúlegt (Forseti hringir.) að ætla að halda því til streitu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)