153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

zfjárlög 2023.

1. mál
[15:14]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Fjárlögin taka ekkert á heimilunum. Þar er ekkert að finna þeim til varnar heldur er þvert á móti aukið á erfiðleika þeirra með gríðarlegri hækkun á alls kyns gjöldum, eins og t.d. bifreiðagjöldum sem tvöfaldast á milli ára. Í gær átti ég samtal við fjármálaráðherra þar sem ég fór fram á að sett yrðu neyðarlög til varnar heimilunum. Það virðast engar áhyggjur hjá ríkisstjórninni af því að hækkun húsnæðiskostnaðar, gríðarleg hækkun húsnæðiskostnaðar, er að sliga gríðarlega mörg heimili, heimili sem eru í meðaltekjum og þar undir. Það er auðvelt að reikna það út hvaða áhrif vaxtahækkanir Seðlabankans að undanförnu hafa haft á lán heimilanna en það hefur verið erfiðara að sannfæra ríkisstjórnina um að þetta hafi haft áhrif á leigjendur. Nú er sannleikurinn kominn upp á yfirborðið og það má þakka hugrökku fólki sem í örvæntingu sinni hefur stigið fram og sagt frá hremmingum sínum. Um þetta hefur verið fjallað í fjölmiðlum en það mál sem þar hefur vakið mesta athygli er því miður ekki einsdæmi eins og fjármálaráðherra vildi láta í skína í svörum sínum hér í gær. Leigufélagið sem um ræðir, Alma, eins og margoft hefur komið fram, hagnaðist um 12,4 milljarða á síðasta ári en það vill meira. Það er greinilega að senda jólaglaðning á fjölda viðskiptavina.

Það er með ólíkindum hvað ríkisstjórnin hefur svakalega litlar áhyggjur af heimilunum. Þau segja, varðandi þá sem eru með lánin, að eiginfjárstaða þeirra hafi batnað svo svakalega að ekki þurfi að hafa neinar áhyggjur af þeim. Þetta er út af brengluðu fasteignamati, það er bara mjög brenglað. Fasteignamarkaðurinn er eins og villta vestrið og þetta fasteignamat, sem nú er komið, sem hækkaði verðmæti eigna fólks um 20 eða 30%, og jafnvel meira, á pappírnum, er ekki tekjur í vasann. Fasteignamatið hefur ekki skilað tekjum til eins eða neins en það mun hins vegar skila útgjöldum, t.d. í formi fasteignagjalda sem hækka.

Það er reyndar mjög merkilegt að á sama tíma hækkar leiga alveg gríðarlega mikið og það er líka stutt með tilvitnunum í fasteignaverð. Fasteignaverð hefur hækkað þannig að leigan þarf að hækka. En ætti það í raun ekki að vera öfugt? Ætti leigan í raun ekki að lækka þegar fasteignamat hækkar af því að eiginfjárstaða leigusalanna er orðin svo svakalega góð? Þeir eiga svo mikið, þeir eru alltaf að eignast meira og meira þannig að í raun ætti leiga að lækka í takti við hækkandi fasteignamat. En svo er ekki. Blindan hjá ríkisstjórninni gagnvart stöðu venjulegs fólks, sem er með meðaltekjur eða minna, er algjör og þess vegna fór ég fram á að sett yrðu neyðarlög til varnar heimilunum, hvort sem er á leigumarkaði eða með lán. Ég vil aftur minna á að leigufélagið sem um ræðir, Alma, hagnaðist um 12,4 milljarða á síðasta ári og þetta félag fékk íbúðir sem fólk missti í hruninu. Það voru a.m.k. 15.000 fjölskyldur sem misstu heimili sín í bankahruninu 2008 eða á árunum eftir það. Þetta er eitt af félögunum sem fékk þessar íbúðir á gjafverði og hefur hagnast gríðarlega síðan.

Það stefnir í að hagnaður bankanna fari yfir 100 milljarða á þessu ári. Við þurfum því að velta fyrir okkur alls konar hlutum í kringum þetta, eins og t.d.: Ef fólk á leigumarkaði missir heimili sín, hvert á það að fara? Hver tekur við þeim? Fer það inn á félagsmálakerfið? Er það ekki löngu sprungið? Hvert á þetta fólk að fara? Eftir hverju er verið að bíða áður en gripið er til aðgerða til að verja heimilin? Það þarf að verja heimilin með því að tryggja með lögum að enginn, hvorki leigjendur né lánþegar, missi heimili sitt í því ástandi sem nú er. Og það er löngu kominn tími til að koma einhvers konar böndum á leigumarkaðinn eins og t.d. hefur verið gert í Skotlandi, á Spáni og í Danmörku.

Einhvern veginn er það svo að fjármagnið á Íslandi ræður lögum og lofum og það kemur einna best fram þegar verið er að ræða um banka og leigufélög og völd þeirra yfir heimilum landsins í nafni græðgi því að þau völd eru algjör. Þessir aðilar virðast vera algerlega óstöðvandi og það yppta bara allir öxlum. Það er ekki hægt að gera neitt. En það er bara ekki rétt, það er hægt að gera ýmislegt. Það verður að setja neyðarlög til að verja heimilin fyrir þessum gegndarlausu hækkunum sem þegar hafa dunið á fólki og er fyrirsjáanlegt að munu halda áfram. Það er ríkisstjórninni til háborinnar skammar að það hafi ekki þegar verið gert, eins og ég sagði í gær.

Ég er ekki gædd einhvers konar spádómsgáfu, langt í frá, en ég fór að glugga í jómfrúrræðu mína frá því í fyrra, sem ég flutti 1. desember 2021, og allt sem ég sagði þar er komið fram núna. Ég ætla að leyfa mér að fara aðeins yfir það. Í stefnuræðu sinni árið 2021 minntist forsætisráðherra ekki einu orði á blússandi verðbólgu, hækkandi vexti og verðtryggingu eða þau áhrif sem þessir þættir hafa á afkomu heimila landsins og ekki neitt á hækkandi vöruverð sem eitt og sér, eins og ég sagði þá, veldur mörgum miklum erfiðleikum, ekki hvað síst öldruðum, öryrkjum og einstæðum foreldrum. Erfiðleikar þeirra voru nægir fyrir og þá þegar var ekki á það bætandi. En það hefur svo sannarlega bæst á það síðan. Andvaraleysi ríkisstjórnarinnar olli okkur hjá Flokki fólksins strax þá miklum áhyggjum því að staðan var grafalvarleg og við vissum að hún myndi koma harðast niður á þeim sem verst væru staddir. Þetta hefur algerlega raungerst.

Þá fannst mér ástæða til að ræða húsnæðiskostnaðinn því að hann væri stærsti útgjaldaliður flestra heimila og réði í raun úrslitum um afkomu þeirra. Þegar ég hélt ræðuna hafði Seðlabankinn hækkað vexti í þrígang, að sögn til að slá á þenslu og verðbólgu. Maður ætti kannski að spyrja sig: Hvernig hefur það gengið? En ég spurði þá: Hvernig í ósköpunum eiga hækkandi álögur á íslensk heimili að slá á verðbólgu sem fyrst og fremst stafar af ófyrirsjáanlegum, óviðráðanlegum og utanaðkomandi áhrifum vegna heimsfaraldurs sem hefur haft gríðarleg áhrif um allan heim? Þessar hækkanir höfðu þá þegar aukið húsnæðiskostnað allra íslenskra heimila svo um munaði.

Svo komum við að því sem hefur verið eitt af mínum hjartans málum. Til að bæta gráu ofan á svart er Ísland eina landið í heiminum sem tengir húsnæðislán heimilanna við neysluvísitölu sem hefur einnig bein áhrif á leigusamninga sem flestir eru verðtryggðir. Eins og ég sagði þá: Afleiðing verðbólgunnar er sú að höfuðstóll verðtryggðra lána heimilanna hækkar hratt og fyrr en varir mun það valda ört hækkandi greiðslubyrði sem mörg heimili munu ekki standa undir. Eigum við eitthvað að ræða þessa fullyrðingu mína frá því í fyrra? Ég sagði þá frá því að á 50 millj. kr. verðtryggðu láni hefði höfuðstóllinn hækkað um að meðaltali 170.000 kr. á mánuði á tveimur árum þar á undan og að það meðaltal myndi óhjákvæmilega hækka á næstu mánuðum og leiða til aukinnar greiðslubyrði sem myndi koma harkalega niður á afkomu umræddrar fjölskyldu.

Mig langar aðeins út frá þessu að ræða um það sem kallað er breytiréttur sem er frumvarp sem ég mælti fyrir um daginn. Í ræðu minni um breytiréttinn kom ég inn á það sem nú hefur gerst á einu ári með verðtryggð lán. Ég ætla að taka það fram að verðtryggingin hefur miklu víðtækari áhrif en við gerum okkur grein fyrir. Ég mun, hafi ég tíma til þess hér á eftir, koma nánar inn á það. Eitt af því sem verðtrygging hefur gríðarleg áhrif á er leiga og á meðan enn er verið að veita verðtryggð lán til heimilanna verður leigan líka áfram verðtryggð, leigusamningar. Það er því okkur öllum til hagsbóta, bæði leigjendum og húsnæðiseigendum, að verðtryggingin verði afnumin á lánum neytenda.

Ég ætla aðeins að koma inn á það hvaða áhrif verðtryggingin hefur haft bara á þessu ári. Við skulum muna að þeir sem eru með verðtryggð lán munu súpa seyðið af núverandi verðbólgu um alla framtíð, löngu eftir að hún er hætt að hafa áhrif á okkur hin, löngu eftir að við verðum öll búin að gleyma heimsfaraldrinum og stríðinu í Úkraínu. Þegar þetta verður minningin ein fyrir okkur flest munu þau sem eru með verðtryggð lán enn vera að borga fyrir efnahagslegar afleiðingar þessara atburða í allt að 40 ár, ofan á allt annað sem óhjákvæmilega mun líka gerast í framtíðinni. Verðtryggð lán eru flókin afleiðulán og sú eina ástæða ætti að nægja til þess að við myndum banna þau með öllu fyrir neytendur. Þau eru eitraður kokteill en þar sem hann er hægdrepandi getur hann litið út fyrir að vera góður til skamms tíma.

Ég ætla að taka dæmi: Fimm ára gamalt 30 millj. kr. lán stóð í 32,5 milljónum í upphafi þessa árs þegar verðbólgan var um 6%. Það hafði þá hækkað um 2,5 milljónir á fimm árum. Þetta er á góðæristímum þegar vextir voru jafnvel á tímabilum lægri en nokkru sinni í Íslandssögunni. Þá hafði þetta lán hækkað að meðaltali um nær 42.000 kr. í hverjum einasta mánuði. Frá því í ársbyrjun á þessu ári hafa svo reiknast vextir, vaxtavextir og verðbætur ofan á 32,5 milljónir í stað 30 milljóna. Í upphafi árs gaf greiðsluáætlun til kynna að lánið myndi standa í 33,4 milljónum í árslok sem var alveg nógu slæmt og hefði þá bætt við sig að meðaltali 75.000 kr. í hverjum mánuði frá lántökudegi. Þarna var ársverðbólgan, eins og áður sagði, um 6% og útlit fyrir að lántakendur myndu þurfa að borga 7 milljónir aukalega fyrir þetta 30 milljóna lán á lánstímanum, bara vegna þessarar 2,5 milljóna verðlagshækkunar sem var 12 mánuðina á undan. Ég tek það fram að lántakendur myndu þurfa að borga miklu meira, 7 milljónirnar voru bara út af þessum 2,5 milljónum sem þarna höfðu bæst við.

Nú blasir við að staðan er enn verri en það og svo slæm að við sem þó höfum haft skilning á skaðsemi þessara lána erum hreinlega í hálfgerðu áfalli. Frá því í byrjun árs hefur verðbólgan hækkað um 3,4 prósentustig og miðað við 9,4% ársverðbólgu og vexti dagsins í dag mun þetta lán standa í um 35 milljónum í árslok og mun þá hafa bætt við höfuðstólinn 80.000 kr. í hverjum mánuði frá því að lánið var tekið. Þar með er ekki öll sagan sögð því að vegna verðbólgu undanfarinna 12 mánaða munu skuldararnir, sem taka á sig vexti, vaxtavexti og verðbætur um alla framtíð, þurfa að borga heilar 30 milljónir aukalega á lánstímanum í stað 7 milljóna eins og í fyrri útreikningum þegar verðbólgan var 6%. Og athugið að það er bara vegna þessa eina árs af öllum 40 ára lánstímanum og bara út af þessum 3,4% sem hafa bæst við frá því í janúar á þessu ári. Eins og áður sagði bættust að meðaltali 42.000 kr. á mánuði við lánið á fjórum árum þar á undan. Það má því gera ráð fyrir að ef lán í fullum skilum hækki bara um 40.000 kr. á mánuði sé það vel sloppið. En nú mun þessi mánaðarlega hækkun vera sexfalt hærri vegna þeirra 3,5 prósentustiga sem verðbólgan hefur hækkað um. Eftir fimm ár héðan í frá, þann 1. desember 2027, verður þetta 30 milljóna lán komið í 49 milljónir og hefur þá hækkað að meðaltali um 233.000 kr. á hverjum mánuði í stað 40.000 kr. fimm árin þar á undan. Þannig vefur lánið upp á sig. Það er þetta sem er svo ótrúlegt með verðtryggðu lánin, það er ekki fyrr en höfuðstóllinn fer að lækka þegar raunverulega kemur að skuldadögum, svo mótsagnakennt sem það er. Ef fram heldur sem horfir mun lánið ekki lækka aftur niður í upphaflegan höfuðstól fyrr en á síðasta ári lánstímans og þá verður greiðslubyrðin, haldið ykkur, komin upp í 2,5 milljónir á mánuði.

Til samanburðar má skoða óverðtryggt lán. Fyrsta afborgun þess er vissulega mun hærri en af verðtryggða láninu þar sem vextir eru nú með hæsta móti. En ef valdar eru jafnar greiðslur er greiðslubyrðin sú sama út allan lánstímann og mun lækka um leið og vextir fara aftur að lækka. Í þessu dæmi eru vextirnir 7,25% en 2,1% af verðtryggða láninu. Flestir myndu væntanlega velja jafnar greiðslur nema þeir séu þeim mun betur staddir. Þá myndu afborganir verðtryggða lánsins vera búnar að ná afborgunum óverðtryggða lánsins eftir tæplega níu ár. En eftir níu ár hefur óverðtryggða lánið lækkað um 3 milljónir á meðan verðtryggða lánið hefur meira en tvöfaldast eða hækkað um 32 milljónir. Það er komið upp í 62 milljónir á meðan óverðtryggða lánið er orðið 27 milljónir. Greiðslubyrði óverðtryggða lánsins verður þá að öllum líkindum orðin lægri en hún er núna en greiðslubyrði verðtryggða lánsins mun aftur á móti bara halda áfram að hækka upp frá því. Þarna er allur sá ávinningur sem verðtryggð lán eru ranglega sögð hafa löngu horfinn og staðan versnar stöðugt upp frá því allt til loka lánstímans. Það er því óhætt að segja að þessi fyrstu ár séu dýru verði keypt. En eins og fyrr segir er það samt ekki fyrr en höfuðstóllinn fer að lækka sem raunverulega kemur að skuldadögum, þegar lánið nær upphaflegum höfuðstól. Í upphafi árs var það um 24 árum eftir að lánið var tekið en núna er það 39 árum eftir að lánið er tekið sem lánið nær upphaflegum höfuðstól og þá þarf að borga niður 30 milljónir á einu ári. Þá verður greiðslubyrði lánsins 2,5 milljónir á mánuði. Þegar upp er staðið mun lántakandinn hafa þurft að endurgreiða rúmlega 353 milljónir af 30 milljóna láni eða meira en 11 falda lánsfjárhæðina. Þetta kann að hljóma fjarstæðukennt — og já, þetta er fjarstæðukennt, en þetta eru staðreyndirnar og stærðfræðin lýgur ekki.

Ef miða á við að afborganir húsnæðislána séu ekki meira en 35% af ráðstöfunartekjum þyrftu meðallaun á Íslandi að vera tæpar 14 milljónir á mánuði undir lok lánstímans. Haldið þið að það verði raunveruleikinn? Það væri ekki merki um góða hagstjórn ef verðbólga hefði verið það mikil á þessum tíma að laun væru komin í þannig upphæðir, enda myndi það líka bara bíta í skottið á sér gagnvart verðtryggðum lánum sem hefðu þá að sama skapi hækkað enn meira.

Það er athyglisvert í þessu samhengi hversu miklu munar á því að verðbólgan hækki um rúm 3% frá því sem var í ársbyrjun því að það hljómar ekki sem mjög mikil sveifla. En á þessum 3 prósentustigum munar meira en 12 milljónum á því hver upphæð höfuðstóls verður eftir fimm ár og 116.000 kr. á mánaðarlegum afborgunum sem hafa þá hér um bil tvöfaldast. Lánið er 13 árum lengur að ná upphaflegum höfuðstól og þegar þar að kemur munar meira en 1,5 milljónum á greiðslubyrði lánsins, allt vegna þess að verðbólgan sveiflast um 3 prósentustig.

Þessi samanburður er lagður fram af tveimur ástæðum. Annars vegar til að sýna fram á að það er ekki síður nauðsyn að veita skuldurum þann möguleika að breyta úr verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð í því ástandi sem er í dag, þegar verðbólga og vextir eru í hæstu hæðum, en þegar tíðin er betri. Hins vegar til að sýna fram á að verðtryggð lán eru ekki skjól. Ég verð alveg svakalega reið þegar ég heyri fjármálaráðherra eða seðlabankastjóra tala um verðtryggð lán sem skjól. Þau eru ekki skjól, þau eru hrein og klár fátæktargildra sem sífellt erfiðara verður að losna úr eftir því sem tíminn líður og eftir því sem ástandið er verra. Það má jafnvel segja að á þessu ári hafi verið versti hugsanlegi tíminn til að taka verðtryggð lán því að þau gera ekkert annað en að seinka því óumflýjanlega. Og ef skuldarinn ræður ekki við afborganir óverðtryggðra lána eins og staðan er í dag er hann með því að taka verðtryggt lán í besta falli að kaupa sér gálgafrest og lengja í snörunni áður en allt fer á enn verri veg. Verðtrygging er sambærileg lausn við það að pissa í skóinn sinn, það er allt betra en það.

Þetta var bara aðeins til að fara yfir verðtryggðu lánin og hvaða áhrif þau hafa. Mig langar reyndar að segja eitt: Það er hægt að líkja þessu við það að maður standi með alveg rosalega langt prik, að maður haldi á því og það nái hátt upp í loftið og um leið og maður hallar sér aðeins hefur það alveg svakaleg áhrif þar hátt uppi. Það er það sem við erum að horfa upp á núna. Verðbólgan hefur bara hækkað um 3% á þessu ári en áhrifin af því eru gígantísk og við sem þjóðfélag munum súpa seyðið af því næstu áratugina vegna þess að það eru mjög margir, þúsundir, sem ekki munu standa undir þessu.

Ekki þarf að ræða áhrif vísitölunnar á leigu sem ég ræddi líka í ræðu minni fyrir ári. Þau eru fljótari að koma fram en áhrifin á lánin og þá þegar voru mörg dæmi um leigusamninga sem höfðu hækkað um tugi þúsunda á mánuði. Og hvað erum við líka að sjá núna? Staðreyndin er sú að fjölskyldur sem ekki hafa getað losað sig úr gildru verðtryggingar eða eru fastar á leigumarkaði eru þær fjölskyldur sem hafa hvað minnst milli handanna og standa hvað verst að vígi til að takast á við hækkandi vöruverð og, það sem verra er, ört hækkandi húsnæðiskostnað að auki. Ég spurði því í þessari ræðu minni fyrir ári: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að verja heimilin? Ég spurði hvort ég ætti að trúa því að ríkisstjórnin hefði enga stefnu og enga áætlun um að verja heimili landsins fyrir þeirri ágjöf sem fram undan væri og hvort virkilega ætti enn og aftur að setja þau undir náð og miskunn fjármálafyrirtækja. Svarið við því er greinilega já. Ríkisstjórnin ætlar aftur að setja heimilin undir náð og miskunn fjármálafyrirtækja og leigusala, hún er að því núna, með aðgerðaleysi en aðgerðaleysi er líka aðgerð í sjálfu sér. Með aðgerðaleysi er hægt að fórna fólki og heimilum í tonnatali og það er verið að gera það núna — það er kannski ekki rétt að segja í tonnatali en þið skiljið hvað ég er að meina.

Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin hefur enga stefnu og enga áætlun um að verja heimili landsins fyrir þeirri ágjöf sem nú þegar er orðin og ekki sér fyrir endann á. Ég sagði líka í ræðu minni fyrir ári: Ríkisstjórnin verður að tryggja að vaxtahækkanir Seðlabankans bitni ekki á heimilunum. Eigum við að ræða það eitthvað? Á hverjum hafa vaxtahækkanir Seðlabankans bitnað? Fyrst og fremst á heimilum landsins. Þetta eru einu aðgerðirnar sem farið hefur verið í til að stemma stigu við verðbólgunni, það eru gegndarlausar vaxtahækkanir sem bitna verst á þeim sem skulda mest og eiga minnst. Það er engin sanngirni í þessu, ekki til. Ég sagði líka: Hækkun vaxta gerir lítið annað en að beina fjármunum heimilanna í stútfull uppistöðulón bankanna þar sem yfirflæðið var þá þegar svo mikið að einn bankinn greiddi út 88 milljarða í arðgreiðslur í einhverri verstu kreppu sem heimsbyggðin hafði séð um langa hríð. Þar hvorki var né er kreppa. Kreppan er ekki einu sinni komin þangað enn þá, það er gósentíð hjá bönkum og leigusölum í dag, gósentíð. Þeir eru með leyfi frá Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu og öllum, frá ríkisstjórninni, til þess að vaða yfir heimili landsins í nafni þess að þeir séu að stemma stigu við verðbólgunni. Það stefnir í yfir 100 milljarða hagnað hjá bönkunum á þessu ári vegna þess að nú er verið að beina fjármunum heimilanna í stútfull uppistöðulón bankanna. Þeir græða meira og meira. Bankarnir græða en heimilin blæða.

Ég sagði svo líka í ræðu minni, með leyfi forseta: Hvernig í ósköpunum er hægt að réttlæta að fyrirtæki með tugmilljarða hagnað á hverju ári fái í skjóli Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar að hækka álögur sínar á fjölskyldur sem margar hverjar berjast þegar í bökkum? Hafa bankarnir ekki fyrir löngu fengið nóg frá íslenskum heimilum? Flokkur fólksins minnir á að fjölskyldur geta ekki hækkað sína gjaldskrá svo að þær geti staðið undir hækkandi skuldbindingum. Þær eru að auki algerlega varnarlausar gagnvart bönkunum og leigusölum því ef þær hlíta ekki afarkostum þeirra munu þær á endanum missa heimili sín. Við erum ekki að tala um samningafrelsi. Það er ekkert samningafrelsi eða valfrelsi í því að velja verðtryggt lán. Það er nauðugur einn kostur. Við þurfum að breyta þessu. Og hvað varðar leigusamningana sem við erum búin að heyra um núna, þetta eru afarkostir, þetta er ekki samningur. Það kemur einn maður eða einn aðili í leigufélagi í þessu tilfelli og segir: Svona verður þetta. Take it or leave it. — Ég bið forseta afsökunar. Það er staðan. Þið getið tekið þetta eða þið getið farið. Ef þið samþykkið ekki það sem við segjum þá eruð þið farin. Og hvert á þetta fólk að fara? Það er skortur á húsnæði. Hvert á það að fara? Og leigan er alls staðar há. Þetta er ekki samningafrelsi, þetta er kúgun, ekkert annað. Þetta er kúgun og þetta er einhver ljótasta kúgun sem hægt er að beita. Það má eiginlega líkja þessu við mafíur. En málið er að ástandið sem við horfum upp á núna var algjörlega fyrirsjáanlegt. Það hefði verið hægt að koma í veg fyrir þennan vanda sem heimilin standa frammi fyrir núna ef þjónkunin við bankana og fjármálakerfið og leigusalana væri ekki alltaf algjör. Þetta er orðið eins og ríki í ríkinu. Í krafti fjármagns og fasteignaeignar getur þetta fólk bara farið sínu fram eins og ekkert sé. Ég hef algjöra skömm á þessu. Og já, ég ætla bara að taka undir það sem sumir hafa sagt og einhverjir hafa verið að fleygja fram á samfélagsmiðlum: Það á að sniðganga algerlega allar vörur sem Alma kemur einhvers staðar nálægt, bara algerlega. Við verðum að láta finna fyrir okkur einhvers staðar, alveg sama þó að uppáhaldssælgætið okkar sé frá Freyju. Skiptir ekki máli, við þurfum bara að neita okkur um það núna. Við verðum einhvers staðar að segja: Hingað og ekki lengra. Við verðum einhvers staðar að geta sett niður fætur. Við verðum einhvers staðar að hugsa um aðra þó að við sleppum í þetta skiptið. Eftir hrun, í þeirri baráttu sem ég stóð í þá, spurði fólk: Skiptir þetta einhverju máli? Ég sagði bara: Já, þetta skiptir máli. Ég er að lenda í þessu núna. Það getur verið að einhver annar lendi í þessu næst og það verður næst, börnin þín eða einhver nákominn gæti verið næst. Og þetta næst er komið og við verðum að standa upp fyrir fólk sem er varnarlaust í þessari baráttu fyrir heimili sínu, fyrir því að eiga þak yfir höfuðið. Það er farið að meðhöndla það eins og einhvern lúxus á Íslandi að eiga þak yfir höfuðið. Þetta er grundvallaratriði og það var algjörlega fyrirsjáanlegt fyrir ári að þetta myndi gerast.

Eins og ég byrjaði á að segja mætti halda að ég væri með einhverja spásagnargáfu. Ég er það ekki, þetta lá fyrir. Það var algerlega augljóst að svona myndi fara, algerlega. Það hefði verið hægt að gera eitthvað þá. Það er enn hægt að gera eitthvað en aðgerðirnar eru erfiðari núna en þær verða samt að eiga sér stað. Það kemur ekkert annað til greina. Og ríkisstjórnin þarf að hætta þjónkun sinni við fjármálafyrirtækin eða fjármagnið. Og að fólk, svo að ég bara segi það hér, sem er með 85 milljónir á mánuði skuli voga sér að segja að það sé þörf á þessum hækkunum — hvað vilja þeir fá á mánuði næst? Ég hef algjöra skömm á þessu og það verður að koma böndum á þetta.

Ég benti einnig á það fyrir ári að íslenska ríkið ætti tvo af þremur bönkum. Ég sagði að nú þyrfti ríkisstjórnin að beita eigendavaldi sínu og grípa inn í þessa oftöku af varnarlausum heimilum landsins sem væri algjörlega ónauðsynleg vegna þess að fyrirtæki með tugi milljarða í hagnað á hverju einasta ári frá hruni, eða alla vega síðustu tíu ár, þyrftu ekki á þessu fjármagni að halda, og ekki heldur leigufélög sem væru að hagnast um 12,4 milljarða. Þau þyrftu ekki á þessum peningum að halda. Ég minnti einnig á það að bankarnir hefðu ekki þurft að hlíta ákvörðun Seðlabankans um vaxtalækkanir og heimilin ættu þær því inni hjá bönkunum. Á þetta hefur ekki verið hlustað. Bankarnir eru mun fljótari að hækka vexti en þeir voru að lækka vexti, það fer ekki á milli mála. Það væri sem sagt ekki lögmál og í raun óforsvaranlegt — það orð notaði fjármálaráðherra í gær þegar hann viðurkenndi loksins að það væri óforsvaranlegt sem væri að gerast hjá leigjendum og því var slegið upp í öllum fjölmiðlum — að bankarnir hækkuðu álögur sínar á heimilin á erfiðum tímum enda væru þeir ekki á flæðiskeri staddir. Annað en fjölskyldurnar sem verið væri að færa þeim á silfurfati og þetta sama á við um leigufélögin, þau eru ekki á flæðiskeri stödd.

Ég spurði einnig, í ræðu minni fyrir ári, um samfélagslega ábyrgð, hvort bankar bæru enga samfélagslega ábyrgð í heimsfaraldri og hver væri samfélagsleg ábyrgð ríkisstjórnar í heimsfaraldri. Það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að verja heimilin. Hún á aldrei getað staðið til baka á meðan stórfelld eignatilfærsla á sér stað frá heimilunum til bankanna og hún á alls ekki að bæta á byrðar heimilanna. Ég sagði: Verði ekkert að gert lendum við sem þjóð áður en langt um líður úti í ófærum með alls kyns hremmingum og ómældum kostnaði sem ekki verður metinn til fjár. Það er ár síðan ég sagði þetta og við erum komin þangað. Það hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta ef ríkisstjórnin væri ekki algerlega meðvirk fjármálafyrirtækjum og stæði einhvern tíma með heimilunum, mikið rosalega væri gaman að sjá það einhvern tíma en það gerir hún aldrei.

Það er mikilvægt og rétt að huga að loftslagsmálum en ég held að árangursríkasta loftslagsaðgerðin sem hægt er að fara í sé að hlúa vel að heimilum landsins. Áhyggjur af loftslagsbreytingum í fjarlægri framtíð eru sennilega ekki efst í huga fólks sem hefur áhyggjur af því að eiga fyrir næstu máltíð eða hvort það eigi heimili eftir örfáa daga eða mánuði. Fjölskylda sem á ekki fyrir leigu eða afborgunum af húsnæðislánum hefur meiri áhyggjur af því heldur en hvernig heimurinn verður ef býflugurnar hverfa. Það eru erfiðir tímar fram undan og margir einstaklingar og fjölskyldur hafa áhyggjur af framtíðinni. Þær áhyggjur munu fara vaxandi. Það sagði ég fyrir ári orðrétt og ég ætla að endurtaka það: Það eru erfiðir tímar fram undan og margir einstaklingar og fjölskyldur hafa áhyggjur af framtíðinni, áhyggjur sem munu fara vaxandi verði ekkert að gert. Flokkur fólksins mun berjast fyrir því að heimilin verði varin. Fólkið fyrst og svo allt hitt. Heimilin eru ekki fóður fyrir bankana.

Ég er búin að standa í baráttu fyrir heimilin frá því skömmu eftir hrun með einum eða öðrum hætti og sem formaður Hagsmunasamtaka heimilanna frá 2017. Ég á rosalega erfitt með að vera komin inn á Alþingi og að það skipti samt engu máli. Enn er maður bara að reyna að láta dropann hola steininn en hefur engin áhrif. Ég á ofboðslega erfitt með að sætta mig við það og ég óttast það sem fram undan er vegna þess að áhrifin munu verða langvarandi hjá þeim sem eru með verðtryggð lán. Það mun ekki gerast strax. Það mun jafnvel, eins og ég sagði áðan, allt vera fallið í ljúfa löð þegar þau sem eru með verðtryggð lán fara virkilega að finna fyrir skellinum. Eins og áður ber enginn ábyrgð á neinu, enga ábyrgð. Þá verður sagt: Ja, þú valdir þetta. Já, ókei. En af hverju er þetta í boði? Það versta sem ég heyri er þegar fólk segir: Það verður að vera verðtrygging af því að annars komast þau sem minnst hafa ekki inn á húsnæðismarkaðinn. Fólkið sem hefur minnst á milli handanna á þannig að taka óhagstæðustu lán sem til eru í veröldinni sem tryggja að þau eignist aldrei neitt. Þannig eru þau fest í fátæktargildrunni.

Við getum gert svo margt annað. Við getum t.d. lengt í lánstímanum ef þannig stendur á. Það er ekkert lögmál að lán séu bara til 40 ára og ef við vildum samt halda þeim í 40 árum væri hægt að byrja á að setja þau upp í 50 ár, bara svona sem dæmi. Við hefðum þá 40 ár til að plokka þessi auka tíu ár af þannig að þegar hagurinn færi að vænkast hjá viðkomandi þannig að það myndi enda í 40 árum. En nei, við bjóðum verðtryggð lán. Ef ég færi upp í Kauphöll og ætlaði að gera afleiðusamning sem væri nákvæmlega eins og verðtryggð lán þá fengi ég það ekki vegna þess að slík lán eru bara fyrir fagfjárfesta, enga aðra, nema á Íslandi. Þar er þetta lausnin fyrir þá sem minnst hafa. Ég ætla bara að taka undir það sem Styrmir Gunnarsson ritstjóri, heitinn, sagði: Þetta er ógeðslegt þjóðfélag. Mér er svo algjörlega nóg boðið. Ég ætla bara að segja við þá sem ég hef verið að berjast fyrir öll þessi ár: Ég vildi óska að ég hefði meiri áhrif og gæti gert meira. En verandi í stjórnarandstöðu er það eina sem ég get gert að hrópa og kalla og reyna að vekja athygli á málunum. Núna krefst ég þess að sett verði neyðarlög til verndar heimilunum.