132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Staða íslensks skipaiðnaðar.

323. mál
[14:09]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í þessari fyrirspurn var spurt svona nokkurn veginn um hvað ætti að verða um skipaiðnaðinn á Íslandi. Það var held ég meginefni fyrirspurnarinnar.

Nýlega hefur verið sagt frá því af Samtökum iðnaðarins að raforkuverð til iðnaðarfyrirtækja hafi hækkað verulega. Er það í algjörri andstöðu við það sem hæstv. iðnaðarráðherra tjáði okkur þegar rætt var um raforkulögin á sínum tíma. Ég kallaði þá aðgerð nafni sem ég tek mér ekki oft í munn, en orðaði það svo að ráðherrann hefði verið að gera axarsköft í öllu því máli. Ég held að ég geti alveg endurtekið það því niðurstaðan er sú að það sem ekki átti að verða varð í hækkun raforkuverðs. Við höfum ekki haft neinn hag af því sem gert hefur verið í raforkumálum, því miður, ekki heldur fyrir skipaiðnaðinn.