133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

gatnagerðargjald.

219. mál
[10:42]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli framsögumanns félagsmálanefndar skrifa ég undir þetta nefndarálit með fyrirvara og, eins og fram kemur í nefndarálitinu, með leyfi forseta, „Jóhanna tekur undir sjónarmið einstakra sveitarfélaga um að álagning gatnagerðargjalds eigi að meginstefnu til að taka til dreifbýlis jafnt sem þéttbýlis“.

Hér tek ég einkum undir þau sjónarmið sem fram hafa komið frá Reykjavíkurborg í þessu máli sem ég tel réttmæt og vitna ég því til umsagnar Reykjavíkurborgar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Borgarráð samþykkti umsögnina, sem fylgir í ljósriti, og leggur áherslu á að horfið verði frá því að binda heimild til innheimtu gatnagerðargjalds við fasteignir í þéttbýli. Það gengur gegn jafnræðisreglunni að einungis hluti fasteignareigenda, sem hyggur á framkvæmdir í sveitarfélaginu, sé látinn standa undir gatnagerð í sveitarfélaginu í formi skattgreiðslna. Götur í sveitarfélaginu eru hluti grunngerðar samfélagsins sem allir íbúar njóta góðs af og því engin haldbær rök fyrir því að undanþiggja íbúa, sem búa utan hins skilgreinda þéttbýlis sveitarfélagsins, frá þátttöku. Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun Reykjavíkurborg ekki geta innheimt gatnagerðargjald vegna fasteigna á Kjalarnesi utan Grundarhverfis þrátt fyrir að gatnakerfi Reykjavíkurborgar nýtist eigendum þeirra fasteigna.“

Það er nánar farið út í þessa umsögn Reykjavíkurborgar sem lögð var fyrir félagsmálanefnd og þar segir að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins sé lögunum einungis ætlað að taka til fasteigna í þéttbýli eins og það er afmarkað hverju sinni samkvæmt staðfestri skipulagsáætlun. Í athugasemdum með frumvarpinu segir að með þessu ákvæði sé tekið af skarið um að innheimta gatnagerðargjalds sé bundin við þéttbýli og að ekki sé um efnisbreytingu að ræða frá því sem talinn er hafa verið gildandi réttur, heldur séu tekin af öll tvímæli um þetta atriði. Engin rök eru hins vegar færð fyrir því af hverju lögin eigi ekki að taka til húsa í dreifbýli. Talið hefur verið að ákvæði núgildandi laga séu ekki nægilega skýr að því er varðar álagningu gatnagerðargjalds í dreifbýli og hafa þau leitt til ágreinings. Við úrlausn slíkra ágreiningsmála og skýringu núgildandi laga um gatnagerðargjald að því er varðar gildissvið með tilliti til dreifbýlis hefur verið litið til þess annars vegar að eldri lög um gatnagerðargjald hafi haft þann tilgang að stuðla að gatnagerð í þéttbýli og tryggja fjármagn til þess verkefnis og hins vegar að núgildandi lög taki einungis til lóða í þrengri merkingu og geti því ekki átt við um jarðveg í dreifbýli, samanber úrskurð félagsmálaráðuneytisins frá 25. október 2001 og dóm Héraðsdóms Reykjavíkur vegna sama máls frá 14. apríl 2003. Vegna óskýrleika núgildandi laga að þessu leyti hefur þótt rétt að skýra ákvæði þeirra þröngt og er það ástæða þess að byggingar í dreifbýli hafa verið taldar utan gildissviðs laganna.

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Augljóst er að mismunandi skattþrep eftir t.d. búsetu innan sama sveitarfélags eru ekki í anda jafnræðisreglunnar. Til þess að ákveða slíkt ójafnræði meðal þegnanna hlýtur að þurfa að setja fram mjög þung rök en það er ekki gert í frumvarpinu eða athugasemdum með því. Að mati undirritaðs væri því nær að taka af skarið og kveða með skýrum hætti á um að lögin skuli gilda um allar byggingar innan sveitarfélags, hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli.“

Síðan leggja þeir til ákveðna breytingartillögu.

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að geta þess hér að aðspurður sagði fulltrúi Sambands sveitarfélaga á fundinum að hann tæki undir að það væri æskilegt að heimild væri til staðar til þess að leggja gatnagerðargjald á aðra en íbúa í þéttbýli. Þetta er önnur ástæðan fyrir þeim fyrirvara sem ég set hér fram og hinn fyrirvari minn lýtur að því sem fram kemur í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Við afgreiðslu málsins hefur athygli félagsmálanefndar verið vakin á því að hvorki er að finna í frumvarpinu ákvæði um skyldur sveitarfélaga til gatnagerðar né um eignarhald og viðhaldsskyldu á götu, en mest hefur borið á slíkum ágreiningi á Akureyri, samanber svonefnt Melateigsmál sem nú er til athugunar hjá umboðsmanni Alþingis. Nefndin telur að eðlilegt sé að á þessum málum verði fremur tekið við væntanlega endurskoðun skipulags- og byggingarlaga en í lögum sem eingöngu varða álagningu og innheimtu gatnagerðargjalds.“

Ég hefði viljað kveða fastar að orði en hér er lagt til. Ég tel nauðsynlegt að í umhverfisráðuneytinu verði þetta mál tekið mjög föstum tökum og skoðað við endurskoðun skipulags- og byggingarlaga sem ég er sammála um að þetta álitaefni eigi heima í. Þegar maður fer að kynna sér þetta mál nánar er alveg ótrúlegt hvernig farið hefur verið með íbúa í téðri götu á Akureyri og vitna ég hér í niðurstöðu ráðuneytisins sem hefur fjallað um það mál. Þannig var farið með málið að lóðarhöfum og síðar fasteignareigendum við Melateig var falið eignarhald á götumannvirkjum lóðarinnar með þeim afleiðingum að þeir bera ábyrgð á viðhaldi og umhirðu mannvirkjanna.

Það kemur hér fram í niðurstöðu ráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Er það mat ráðuneytisins að eignarhald og þar af leiðandi viðhaldsskylda umræddra mannvirkja séu verkefni sveitarfélagsins samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum.“

Einnig kemur hér fram, með leyfi forseta:

„Á grundvelli þeirra forsendna sem að framan hafa verið raktar“ — og þá er verið að lýsa þessu máli — „er það álit ráðuneytisins að fyrirkomulag Akureyrarkaupstaðar við gatnagerð um Melateig á Akureyri sem og ákvörðun sveitarfélagsins að undanskilja sig eignarhaldi á götumannvirkjum þar sé að verulegu leyti í ósamræmi við lög. Ráðuneytið telur að í ljósi eðlis gatnagerðargjalds og þjónustugjalds hafi Akureyrarkaupstað verið óheimilt að innheimta að fullu gatnagerðargjald af lóðarhafa Melateigs en láta lóðarhafa engu að síður annast alla gatnagerð á lóðinni á eigin kostnað. Er það álit ráðuneytisins að undir þessum kringumstæðum hafi Akureyrarkaupstað borið að veita lóðarhafa afslátt af gatnagerð sem næst þeirri fjárhæð sem sveitarfélagið sparaði sér með umræddu fyrirkomulagi.“

Það mætti hafa fleiri orð um þetta mál og niðurstöðu ráðuneytisins sem er allítarleg og gengur öll í þá átt að taka undir þau sjónarmið sem íbúar við Melateig hafa sett fram varðandi gatnagerð á lóðinni. Því tek ég mjög sterklega undir það sem ég hefði viljað kveða fastar að í greinargerðinni, að þetta álitaefni verði kirfilega neglt niður í skipulags- og byggingarlögum og að þetta geti ekki átt sér stað í framtíðinni. Mér skilst varðandi þetta tiltekna mál að núna sé verið að leita leiða til að koma til móts við íbúa Melateigs hvað þau atriði varðar sem íbúarnir hafa sett fram. Sjónarmið þeirra eru sannarlega mjög gild í þessu máli.