133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

símhleranir.

[14:38]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að lýsa því yfir í upphafi máls míns að mér hefur ekki gefist tími til að lesa þá bók sem hv. málshefjandi, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, talaði um í ræðu sinni en ég hyggst svo sannarlega gera það því mér finnst þessi mál á allan hátt mjög áhugaverð. Það er mjög gaman að velta þessu öllu saman fyrir sér og nauðsynlegt að við gerum það öll, íslenska þjóðin.

Ég hef tjáð mig um þessi mál áður í ræðustóli Alþingis. Við ræddum þetta í október og þá lýsti ég þeirri eindregnu skoðun okkar í Frjálslynda flokknum að það væri náttúrlega langeðlilegast að þessi mál yrðu öll rannsökuð. Ég fagna þeim drögum að þingsályktunartillögu sem við þingmenn fengum senda fyrr í dag varðandi að það að nú verði skipuð rannsóknarnefnd sem hafi það verkefni að rannsaka hvað eina sem tengist grunsemdum eða upplýsingum um að öryggisgæsla, lögregluyfirvöld eða aðrir á vegum stjórnvalda hafi annaðhvort stundað hleranir eða viðhaft ólöglegt eftirlit með borgurum landsins.

Mér finnst eðlilegt og sjálfsagt að þetta verði gert. Að við hreinsum þessi mál út kinnroðalaust, gerum okkur grein fyrir hvernig þetta var þannig að við getum lagt þetta að baki okkar. Einfalt mál.

Mér finnst það alveg með ólíkindum, virðulegi forseti, að hlusta á ráðherra Sjálfstæðisflokksins fara undan í flæmingi hvað þetta varðar. Hvað hafa menn eiginlega að fela? Hvað er það sem menn óttast í þessum efnum? (Gripið fram í: Það blasir við.) Nei, mér finnst það ekki blasa við. Ég skil ekki hvað menn óttast.

Það var náttúrlega mjög sérstakt ástand á þessum árum, mjög sérstakt, og kannski eigum við sem erum uppi í dag erfitt með að skilja það, við sem ekki lifðum þessa tíma. En ég fæ ekki séð að það þurfi að ríkja nein tregða í þessum efnum. Það á bara að rannsaka þetta og fá þetta á hreint og punktur.