138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[21:22]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur kannski misst af því en í sumar skrifaði ég undir lítinn fjárfestingarsamning við Becromal sem ekki þarf að koma fyrir þingið með þessum hætti sem undanskilur þá ákveðnar fjárfestingar tengdar því verkefni frá gjaldeyrishöftunum til að auðvelda fjárfestinguna og uppbygginguna hér á landi. Til mikillar ánægju fyrir okkur fór verksmiðjan af stað í ágúst sl. og vonandi liðkaði þetta eitthvað til. Einnig var kveðið á um það í fjárfestingarsamningnum sem við skrifuðum undir við Becromal að við mundum í framhaldinu fara yfir möguleika á ívilnunum á uppbyggingartímum þannig að það liggi fyrir.

Ég er alveg sammála mörgum þeim viðhorfum sem koma fram hjá hv. þingmanni, t.d. að það sé sérkennilegt að menn geri samninga við eitt og eitt fyrirtæki. Þetta verður að vera gagnsætt og það er þess vegna sem ég boðaði það í ræðu minni áðan, og hef áður boðað það í iðnaðarnefnd og víðar, að í byrjun næsta árs mun ég leggja fram frumvarp sem er rammalöggjöf utan um allar nýfjárfestingar hér á landi, erlendar fjárfestingar, þannig að fyrirtæki njóti jafnræðis og þannig að það sé líka gagnsætt hvað Ísland hefur upp á að bjóða í samkeppni við önnur ríki um nýfjárfestingar. Ég held að ég og hv. þingmaður deilum þeirri skoðun að okkur vantar líka gjaldeyri hingað til landsins.

Hvað varðar innlend fyrirtæki þá erum við með fyrir þinginu tvö mjög áhugaverð verkefni sem er endurgreiðsla vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar innan fyrirtækja sem eru líka ívilnanir út af fjárfestingum í t.d. nýsköpunarfyrirtækjum hér á landi. Það þarf því að fara aðrar leiðir í því og örva innlend fyrirtæki heldur en þessa erlendu fjárfestingu. Ég held að ég og hv. þingmaður getum verið ágætlega sammála um það að gagnsæi skiptir öllu máli. Þess vegna veit ég að við eigum eftir að eiga uppbyggilegar samræður um frumvarpið sem lagt verður fram eftir áramót.