138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[21:32]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað til að gleðja hv. þingmann, vegna þess að það sem hann sér í frumvarpinu er eingöngu toppurinn á ísjakanum. Mér þykir ánægjulegt að fara yfir það í stuttu máli, eins og ég sagði í samtali við hv. þm. Pétur Blöndal áðan, að skrifað var undir fjárfestingarsamning við Becromal til að losa fyrirtækið undan gjaldeyrishöftum á uppbyggingarskeiði, enda fór það af stað hér í ágúst í Eyjafirðinum. Ég vil líka nefna það að ekki fyrir löngu síðan stofnuðu tölvuleikjaframleiðendur með sér samtök. Virðulegi forseti, ég get talið upp um 500 störf í hátækni- og sprotageiranum, sem hafa orðið til á síðustu mánuðum eða verða til á næstu mánuðum, og ég er alveg örugglega að vantelja. Ég skal fara aðeins yfir það.

Tölvuleikjaframleiðendur stofnuðu með sér samtök nýverið þar sem sá iðnaður er núna að springa út hér á landi og veltir 10 milljörðum á þessu ári, starfsmenn eru 350 og á næstu mánuðum er áætlað að ráða 200 inn í þann iðnað. Þannig að hann er að springa hér út, virðulegi forseti, og það á vakt þessarar ríkisstjórnar.

Ég vil líka nefna það að á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands hafa verið opnuð sex ný frumkvöðlasetur frá því hrunið varð í fyrra. Þar hafa orðið til 150 ný störf. Þar af opnaði ég nýverið svokallaðan heilsutæknigarð, þar sem urðu til um 40 störf í litlum sprotafyrirtækjum á því sviði. Bara svo eitthvað sé nefnt, virðulegi forseti, vegna þess að hér hefur það algjörlega farið fram hjá mönnum að það er geiri þarna úti sem er að springa út þessa dagana og það er hátækni- og sprotageirinn og þar munu verða til hundruð og þúsundir starfa á allra næstu árum.