138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[23:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir að ræða um þessi mikilvægu mál. Ég kemst ekki hjá því að leiðrétta hv. þingmann. Ég held að við séum sammála um markmið og jafnvel leiðir líka, en það er svolítið með ágæta félaga mína, hv. þingmenn í Samfylkingunni, að Evróputrú þeirra er svo mikil að þeir ganga lengra en Evrópusambandið sjálft í að mæra það ríkjabandalag. Þess vegna er þetta einhvern veginn orðið þannig að ef menn voga sér að minnast á að þarna hafi kannski orðið einhver mistök hlaupa menn upp til handa og fóta, verja það og sjást ekki alltaf fyrir.

Varðandi þessa sameiginlegu evrópsku skráningu hefur hún því miður ekki verið notuð jafnmikið og menn ætluðu. Í ofanálag er vandinn sá að framleiðendur vilja ekki setja í íslenskar pakkningar. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, auðvitað gætum við verið með 30 eða 40 tungumál, þeir eru bara ekki með þau. Það þýðir ekkert að halda öðru fram, ég veit þetta vegna þess (Gripið fram í.) að ég var að vinna að því með bestu sérfræðingum þessa lands að lækka lyfjaverðið. Það er undanþáguákvæðið. Við getum alveg bókað það að ef markmið mitt mun nást, það að þetta yrði flutt mikið inn — lögin tóku gildi 1. október 2008, reglugerðin tók gildi 6. nóvember 2008, þá var Lyfjastofnun veitt heimild til að leyfa að fylgiseðlar með lyfjum væru á ensku eða Norðurlandamáli að því tilskildu að afhent væri íslensk þýðing fylgiseðilsins við afgreiðslu lyfsins út úr lyfjabúð. Það er alveg ljóst — og þetta er það sem ég var að ræða við framkvæmdastjóra Evrópusambandsins. Ég sagði: Það er verið að brjóta á okkur, það er verið að níðast á okkur og við verðum að geta opnað markaðinn. Þetta reglugerðarfargan er notað sem tæknilegar hindranir, það eru engin málefnaleg rök fyrir þessu. Niðurstaðan af þessum fundum varð sú að án þess að geta lofað einu eða neinu ræddu menn um að þetta væri hugsanlega gloppan til að fara inn í þetta, það væri hægt að prenta fylgiseðlana út í apótekunum því að þá hafa framleiðendur ekki jafnmikið vald yfir því hvað fer til landsins. Auðvitað hafa framleiðendurnir með einum eða öðrum hætti stoppað það að lyf hafi farið til landsins.

Ég gerði samning við Svía um að öll lyf sem flutt eru til Svíþjóðar eigi að fara sjálfkrafa til Íslands nema framleiðandinn segi: Nei, ég vil það ekki. Samt segja nokkrir nei og það segir manni að þetta er ekki alveg eins og það á að vera, eins og við vitum öll.

Frá því að ég kom inn í ráðuneytið leituðum við sleitulaust allra leiða innan evrópska regluverksins. Við fórum algjörlega út á ystu brún, ég held að það sé alveg óhætt að halda því fram, en það var gert með vilja vegna þess að þetta er ólíðandi. Staðreyndin er sú að við höfðum meiri sveigjanleika áður en við gengum í Evrópska efnahagssvæðið, hvort sem fólki líkar það betur eða verr. Menn verða að fara að átta sig á því að það er gott fyrir þá sem eru á þjóðþinginu að trúa því í hjarta sínu að allt sé gott sem kemur í tilskipunum Evrópusambandsins. Það er ekki þannig.

Við höfum sofnað á verðinum, við sofnuðum á verðinum þegar við innleiddum þetta, það er alveg augljóst að menn huguðu ekki neitt að þessum málum þegar það var gert, því að í mörg ár var þetta eins læst og það gat orðið. Svo sannarlega flutum við sofandi að feigðarósi þegar kom að Icesave og í mörgum öðrum málaflokkum, því miður. Ég met það að menn séu fylgjandi því, það eru málefnaleg rök fyrir því og menn geta haft þá hugsjón og skoðun, að fara inn í Evrópusambandið en menn verða samt sem áður að horfast í augu við staðreyndir mála, hvort sem við erum á Evrópska efnahagssvæðinu eða förum í nánara samstarf í framtíðinni, og hugsa alltaf um hag Íslands sem lítillar þjóðar. Við þurfum alltaf að haga okkur þannig að við aukum hér samkeppni en minnkum hana ekki. Því miður hefur það ekki verið svo þessa áratugi frá því að við gengum inn í EES hvað þennan markað varðar og á ýmsum öðrum sviðum má laga hlutina.