140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

staða dýralæknisþjónustu um land allt.

[13:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir að taka þetta mál upp. Við ræðum þær aðstæður sem hafa komið upp eftir að ákveðið var að skipta upp með skipulagsbreytingum starfsemi dýralækna, þ.e. annars vegar stjórnsýslu- og eftirlitsþættinum og hins vegar þjónustuþættinum. Þetta hljómar svo sem ekki neitt illa þegar menn segja þetta svona, að það sé ekki sami aðilinn sem hefur með þjónustuna og eftirlitið að gera. Hins vegar verðum við að taka mið af því að það sé þá framkvæmanlegt, sú umgjörð sé þá framkvæmanleg í okkar dreifðu byggðum. Ef það er þannig að núna strandi á því að ná hugsanlega samningum við þessa aðila, það kom fram í máli hæstv. ráðherra að dýralæknar hefðu hafnað því að taka að sér þessi tvö verkefni, langar mig að spyrja hvort það hafi þá eingöngu verið vegna kjaramála, hvort dýralæknar hefðu gert einhverjar athugasemdir við það að þetta væri á sömu hendi eins og það hefur verið eða hvort einungis séu deilur um kjaramál.

Ég hjó eftir því í máli málshefjanda, hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar, þegar hann sagði að þróunin virtist vera, eða afleiðingarnar af breytingunum væru þær að bændur væru farnir að sækja minna til dýralækna, þá fjallar þetta um dýravernd að sjálfsögðu og mjög bagalegt er ef það er niðurstaðan. Ef svæðin eru orðin það stór, vegalengdirnar það miklar og kostnaðurinn það mikill, þá er mjög dapurlegt ef það bitnar á dýraverndinni sem slíkri. Það held ég að allir séu sammála um.

Ég vil í lok máls míns hvetja hæstv. ráðherra til að leita allra leiða til að leysa þetta mál. Ég þykist vita, og veit, að hæstv. ráðherra þekkir málið ábyggilega mjög vel, bæði vegna uppruna síns og starfa sinna. (Forseti hringir.) Ég hvet því hæstv. ráðherra til að finna viðunandi lausn á málinu.