140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:06]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa málefnalegu og ágætu ræðu. Tveimur spurningum var beint til mín. Í fyrsta lagi varðandi hringveginn. Með tilliti til Austurlands sérstaklega hafa tveir valkostir verið í stöðunni; að halda okkur upp til fjalla annars vegar og niður til sjávarins hins vegar. Við erum með báða kostina inni. En ég legg áherslu á að hér hljótum við að hlusta á heimamenn á sama hátt og ég hef viljað hlusta á heimamenn á Vestfjörðum — þeir voru ekki sáttir við þá leið sem ég vildi fara á Vestfjarðavegi, að laga hálsana, sem var skjótvirkasta og ódýrasta leiðin til að fá skjótar úrbætur í samgöngum á sunnanverðum Vestfjörðum — þá verð ég við því, þá hlusta ég á sjónarmið þeirra. Það sama gildir um Austurland að sjálfsögðu. Ég legg áherslu á að í landshlutanum ríki samkomulag um það.

Varðandi jarðgangagerð og Norðfjarðargöng sérstaklega þá tek ég heils hugar undir það sem hv. þingmaður sagði nú og hefur sagt áður um mikilvægi þeirra ganga þjóðhagslega og hvað varðar öryggi og annað, og hv. þingmaður hefur sérstaklega vikið að öryggi í heilbrigðisþjónustunni í málflutningi sínum. Undir þetta tek ég allt saman.

Ef við fengjum fjármuni til ráðstöfunar, meiri en við gerum ráð fyrir núna, væri ég stuðningsmaður slíks, en á þeirri forsendu að það bitnaði ekki á öðrum framkvæmdum og væri ekki (Forseti hringir.) tekið út úr samgönguáætlun vegna þess að ég tel að við þurfum að halda okkur við þau verkefni (Forseti hringir.) sem þar er gert ráð fyrir.