141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:20]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt að það er náttúrlega ómögulegt að skýla sér alltaf á bak við það sem gerðist í október 2008 og afsaka það að ekkert sé gert í hlutunum, þeir látnir malla, verða verri og verri og kalla um leið á meiri og meiri útgjöld frá ríkissjóði. Besta dæmi um þetta er SpKef sem þáverandi efnahagsráðherra sagði að mundi ekki kosta ríkissjóð nema 1.100 milljónir, var það ekki eitthvað slíkt?

Vandamálið í Íbúðalánasjóði hefur verið þekkt lengi og í það langan tíma að auðvitað átti fyrir löngu að vera búið að gera eitthvað í því máli, í staðinn fyrir að sletta inn einhverjum upphæðum með reglulegu millibili. Það var ekki tekið á vandanum. Svo yppta menn bara öxlum og segja: Hér varð hrun. Hversu lengi heldur stjórnin að hægt sé að blekkja almenning í þessu landi? Mér er spurn.

En það er algjörlega ljóst að sá tími er löngu liðinn þar sem menn geta skýlt sér á bak við það sem gerðist í október 2008. Ef menn gera það eru þeir að lýsa því yfir að þeir séu óhæfir og ráði ekki við að reka þetta ríki með öllu sem til þarf. (VigH: Það er rétt.)