141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að halda áfram þar sem frá var horfið varðandi þessa IPA-styrki. Fram kemur á bls. 20 í nefndaráliti meiri hlutans að Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins er búin að taka til sín 540 millj. kr. Ég minni á að fjárveitingavaldið, meiri hluti Alþingis veitti Evrópusambandinu lán í formi þess að setja inn á fjárlög 2010, 2011 og 2012 180 millj. kr. framlag þrjú ár í röð, en nú í sumar eða í vor voru þessir IPA-styrkir samþykktir þannig að lagasetningarvaldið varðandi þessa styrki sem ég kallaði mjög eftir að fá að vita um á hverju væru byggðir var raunverulega lán ríkissjóðs til Evrópusambandsins.

Nú hafa þessir IPA-styrkir komið hingað til útgreiðslu og þá kemur það í ljós að þessar 540 millj. kr. sem íslenska ríkið hafði lagt Evrópusambandinu til á þessu árabili eiga að koma sem mótframlag Íslands við stuðningi Evrópusambandsins t.d. við Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins og ýmis önnur verkefni.

Mig langar því til að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson: Hvers vegna er svo lítið fjallað um að verið er að dæla 5.000 millj. kr. inn í landið og hvers vegna er svo lítið fjallað um þau mótframlög sem leggja þarf til svo ríkið geti tekið á móti IPA-styrkjunum? Þarna fer 540 millj. kr. fyrirframgreiðsla ríkisins beint inn í mótframlög. Búið er að afgreiða mótframlögin í fjárlögum 2010, 2011 og 2012 og þá koma þau þar af leiðandi ekki fram í fjárlögum 2013. Er ekki um nokkurs konar sjónarspil eða blekkingar að ræða?