141. löggjafarþing — 45. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:52]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það að þegar eignir eru seldar eigi náttúrlega í fyrsta lagi að greiða niður skuldir, en ef hægt er að setja fjármagnið í fjárfestingu sem skilar betri afkomu til ríkissjóðs eða meiri tekjum en af því að greiða niður skuldir þá er skynsamlegt að skoða það.

Í þá fjárfestingu sem ég nefndi erum við til að mynda að setja 500 millj. kr., í eina sýningu í Perlunni. Nú liggur ekkert fyrir hvernig það verður gert, ekkert samkomulag er á milli ríkis og sveitarfélagsins sem að því kemur. Ef við skoðum tillöguna þá á aðgangseyririnn að standa undir rekstrinum en á sama tíma erum við að flytja tillögu um að auka framlag til Hörpu um 400 millj. kr. vegna þess að hún stendur ekki undir sér. Auðvitað þurfum við að læra af því. Við getum ekki leyft okkur slíkan munað eins og staðan er þegar við erum að fara að greiða 84 milljarða í vexti á næsta ári.