144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Í nýútkomnu tímariti VR er ágæt grein eftir formann félagsins, Ólafíu B. Rafnsdóttur, þar sem hún vekur athygli á því sem sá sem hér stendur hefur nú gert nokkrum sinnum undanfarna mánuði og reyndar í heilt ár, og það er sú staðreynd að meðan íslenska krónan styrkist þá hækkar matarverð í landinu.

Hún segir í greininni um þróun gengis íslensku krónunnar frá upphafi árs 2013 til september í ár, samanborið við þróun á verðlagi á mat- og drykkjarvöru og þróun á verðlagi á innfluttri vöru:

„Á tímabilinu styrktist krónan um 12,4%. Matarverð eða verð á dagvöru hækkaði á sama tímabili um 1,8% og verð á innfluttri mat- og drykkjarvöru lækkaði um 0,6% samkvæmt mælingum Hagstofunnar.“

Því spyr hún þá sem halda fram að styrking krónunnar hafi skilað sér í lægra verði á nauðsynjavörum hvar ávinningurinn sé. Ég tek heils hugar undir þetta með þessari ágætu konu, þessum ágæta formanni VR. Ég sé ekki betur en að sú styrking krónunnar sem ekki hefur verið skilað út í vöruverð geri meira en að dekka þá hækkun sem hugsanlega verður af hækkun neðra þreps virðisaukaskatts.

Ég held því að það sé mjög nauðsynlegt að allir sem vettlingi geta valdið fylgist vel með hver þróun verðlags verður nú á næstu vikum og mánuðum eftir að lægra þrep virðisaukaskatts hefur verið hækkað og það hærra lækkað ásamt því að vörugjöld, m.a. á matvöru, lækka. Ég held að það sé full þörf á því að kaupmenn geri sér grein fyrir ábyrgð sinni og skili styrkingu krónunnar út í verðlagið.