144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:28]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í þessari tillögu gerum við í stjórnarandstöðunni tillögu um að heiti fjárlagaliðar sem ber mjög langt heiti og hefur í heiti sínu nafnið græna hagkerfið fái rétt heiti sem endurspegli eðli þeirrar fjárveitingar sem þar er undir. Það er sérkennilegur feluleikur sem hæstv. forsætisráðherra hefur hafið um að hengja heitið „Græna hagkerfið“ á ýmis húsafriðunarverkefni og önnur ágæt verkefni sem eiga ekkert skylt við græna hagkerfið. Hér var samþykkt þingsályktunartillaga á síðasta kjörtímabili með stuðningi þingmanna úr öllum flokkum um uppbyggingu á grænu hagkerfi og fjárveitingar til þess. Það liggur alveg fyrir hvernig skilgreina ber hugtakið græna hagkerfið og það er dapurlegt að sjá þann afbökunarleik sem stendur yfir. Það skiptir máli að kalla hlutina sínu réttu nafni. Hér var sköpuð þverpólitísk samstaða um fjárveitingar og uppbyggingu á hinu græna hagkerfi og það er sorglegt ef stjórnarmeirihlutinn ætlar að hverfa frá þeirri stefnu.