144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:29]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga stjórnarandstöðunnar er fyrst og fremst sett fram til þess að auka gagnsæi og skýrleika fjárlagafrumvarpsins hvað þetta varðar. Það gerðist hér á síðasta ári að þessi tiltekni liður, Græna hagkerfið, breyttist í dótaskúffu hæstv. forsætisráðherra sem var dýpsta og drýgsta skúffan í Stjórnarráðinu og var notuð fyrir verkefni sem hæstv. ráðherra hafði sérstakan áhuga eða mætur á. Það var í sjálfu sér ekki til fyrirmyndar og raunar til skammar. Hér er sú viðleitni hjá stjórnarandstöðunni að láta liðinn heita það sem hann felur í sér og þá getur stjórnarmeirihlutinn horfst í augu við það hvort hann vilji að hið raunverulega græna hagkerfi, þ.e. það verkefni sem fór hér í gegn með öllum greiddum atkvæðum, njóti einhvers atbeina fjárveitingavalds Alþingis.