144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:09]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er tillaga minni hlutans um að auka fé til nýframkvæmda. Það mætti vera miklu hærri tala en þarna er sett fram. Ég ítreka það sem ég sagði áðan við stjórnarmeirihlutann, og tala þá sérstaklega til þeirra þingmanna sem koma úr landsbyggðarkjördæmunum þar sem miklar framkvæmdir eru fram undan, og reyndar líka á höfuðborgarsvæðinu. Við getum tekið sem dæmi Arnarnesveg sem átti að fara í útboð á næsta ári en verður ekki boðinn út. En af því að hér var kallað fram í áðan þegar ég nefndi Íslandsmet í að gera ekki neitt árið 2015 vil ég geta þess að framlög til nýframkvæmda Vegagerðarinnar árin 2008–2013 voru hvorki meira né minna en 82 milljarðar kr. Það var Íslandsmet (Gripið fram í.) í framkvæmdum á þessum árum. En nú er stjórnarmeirihlutinn að slá nýtt Íslandsmet sem er nánast engar framkvæmdir á næsta ári. Sú stefnumörkun er mjög undarleg og ég trúi því ekki enn að landsbyggðarþingmenn stjórnarinnar ætli að láta þetta ganga yfir sig.