144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

almannavarnir o.fl.

412. mál
[23:16]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra framsöguna og bjóða hana velkomna til starfa.

Mig langar líkt og aðra þingmenn að viðra áhyggjur mínar af þeim þætti sem varða valdheimildir á neyðarstundu. Ég held að ekki sé ofmælt að það er sá þáttur sem er mest ástæða til að hafa áhyggjur af vegna þess að hinir þættir frumvarpsins sem snúast kannski fyrst og fremst um að mæla skýrar fyrir um skyldur stofnana, fyrirtækja o.s.frv. og ekki síður sá þáttur sem varðar ákvæði um skaðabótaskyldu vegna ákveðinna fyrirmæla og því um líkt er kannski skýrari. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra og ætlast kannski ekki til að hún svari því beint af augum en velti vöngum yfir því með okkur hér hvort raunveruleg ástæða sé til að ganga fram í þessari umferð þegar frumvarpið gengur í gegnum nefnd að breyta lögum um almannavarnir með svo afgerandi hætti að því er varðar þessar valdheimildir á neyðarstundu eða hvort það sé ekki rétt tilfinning hjá mér að það séu frekar hinir þættirnir sem ríður mest á að ljúka.