144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

423. mál
[23:39]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að fjármálaráðuneytið hefur gert athugasemdir við það að við séum að nýta fjármuni ofanflóðasjóðs í hættumat og hefur auðvitað gert það líka á sl. þremur árum varðandi hættumat eldgosa sem við erum hér að framlengja. Ég tel að það sé kannski verkefni þingsins að skoða það í heildarsamhenginu hvort þetta sé engu að síður ekki skynsamleg leið. Um leið er ég sammála hv. þingmanni í því að við þurfum að fara að endurskoða umgjörðina um ofanflóðasjóð ef við ætlum okkur að taka alla þessa aðra þætti þarna inn, til að vinnuferlið sé eðlilegt.

Ég minnist þess reyndar að í umsögn fjármálaráðuneytisins varðandi útgjöld til ofanflóða varnargarða hafi einnig verið höfð nokkur orð um að það beri að fara varlega í því. Þetta verkefni er til þess að verja byggð og forða manntjóni og vera forvörn í sjálfu sér og sú hugsun sem við erum að setja hér inn með því að setja fleiri flóðahættur inn í verkefnið til að fá hættumatið fram, til að vita í raun og veru hvar við erum stödd, ég held að það sé einfaldlega skynsamlega farið með opinbert fé hvað þetta varðar og treysti þinginu til að fara vel yfir það og hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að fá svör við þessum spurningum.