146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

68. mál
[15:17]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég myndi vilja sjá stjórnskipan hér á þann veg að það væri í raun og veru bara eitt ráðuneyti með mörgum ráðherrum sem héldu utan um málaflokka og að það væri miklu meira flæði þar á milli. Það er ekkert að fara að gerast strax. Ég held að það sé ekkert rosalega sniðugt að búa til risaráðuneyti með málaflokkum sem eiga ekkert endilega saman, eins og innanríkisráðuneytið. Mér fannst það ekki svo gott þegar ég hugsa um hvernig það þróaðist, það virkaði ekkert rosalega vel. Þess vegna m.a. erum við í bútasaum.

Mér finnst gott að það séu öflugir verkstjórar með pólitíska sýn sem haldi utan um málaflokka sem heyra undir hvert ráðuneyti. Mér finnst það mjög gott. Ég myndi vilja sjá því breytt hvernig stjórnskipan er hér. Eins og er eru hér mjög lokaðar einingar. Það var ekki það sem mælt var með í rannsóknarskýrslunni. Ég myndi vilja ganga lengra með það. Á meðan við höfum það ekki og á meðan við höfum tiltölulega veikt Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu vil ég leggja meiri áherslu á að efla Alþingi. Það er þar sem hjarta mitt slær. Það hefur ekki tekist nægilega vel núna, finnst mér, t.d. skilst mér að verið sé að undirbúa komu 100 mála á málaskrá ríkisstjórnarinnar. Þessi mánuður er að verða búinn og það er „dead-lænið“. Við munum fá alveg rosalega mikið af málum og afbrigðum sem við getum ekki unnið nægilega vel. Við erum enn þá hér. Hvernig ætlum við að spyrna við því? Við verðum að spyrna við því með því að hvetja og styðja forseta í að segja: hingað og ekki lengra.