146. löggjafarþing — 45. fundur,  21. mars 2017.

þingsköp Alþingis.

202. mál
[17:13]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Herra forseti. Ég hef lengi fylgst með pólitík. Það er langt síðan mér barst til eyrna að mjög mikilvægur hluti af starfi þingmanna færi fram í nefndum. Eftir að hafa upplifað það sjálfur núna undanfarnar vikur og mánuði hef ég fengið staðfestingu á þeim orðum. Því miður hefur hins vegar smám saman runnið upp fyrir mér ljós að þetta starf er að hluta til endurtekið starf. Það synd og skömm.

Á dagskrá þess þingfundar sem nú stendur yfir, 45. þingfundar, eru sjö lagafrumvörp. Fjögur þeirra hafa verið flutt áður, eitt er flutt í áttunda sinn. Nú veit ég ekki á hvaða stigum þessi frumvörp dagaði uppi eða hvers vegna, enda skiptir það ekki öllu máli. En að þau hafi ekki verið afgreidd með formlegum hætti er eiginlega frekar sorglegt. Fyrir þessum málum er mælt í þingsal aftur og aftur og aftur. Um þau er fjallað í nefndum aftur og aftur og aftur. Sömu aðilarnir eru beðnir um umsagnir aftur og aftur og aftur. Sömu gestirnir koma fyrir nefndirnar aftur og aftur og aftur. Það er alltaf sama tuggan. Þvílík vinnubrögð. Þetta er til háborinnar skammar.

Ef þetta frumvarp okkar verður að lögum mun starfið verða skilvirkara og betra. Við komum meiru í verk og hver veit nema tiltrú almennings á Alþingi aukist. Það skyldi þó aldrei vera.