148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

starfsemi Airbnb á Íslandi.

[15:27]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður telur þurfa að koma böndum yfir þessa starfsemi, svokallaða heimagistingu. Eins og önnur starfsemi er hún alveg örugglega ekki undanþegin þeirri gagnrýni sem hægt er að leggja fram hvað varðar allar skráningar eða skil á sköttum og öðru. Hún sætir hins vegar alveg nákvæmlega sama eftirliti og önnur starfsemi í landinu þegar kemur t.d. að eftirliti með greiðslu gjalda og skatta. Starfsemin sem slík heyrir undir annan ráðherra en þann sem hér stendur, nefnilega hæstv. ferðamálaráðherra, en eftirlitið og skráningin hefur verið í umsjón sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Honum hefur verið falið sérstaklega að halda utan um skráningar og leyfisveitingar í þessu tilliti. Ég held að núna gæti alveg verið tilefni til þess, eftir nokkur misseri sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur haft þetta hlutverk með höndum, að vega og meta hvort þessu eftirliti sé mögulega betur fyrir komið annars staðar, nær vettvangi ef svo má að orði komast, t.d. hjá sveitarfélögunum. Það liggur fyrir að nú hefur verið gerð gangskör að því að fjölga skráningum að þessu leyti. Ég held að það hafi tekist alveg prýðilega en eðli starfseminnar er hins vegar þannig, menn verða bara að horfast í augu við það, að það er erfitt að koma því við að allir séu skráðir á hverjum tíma. Ég held að þar sé víða sé pottur brotinn en það eru engin áform af hálfu dómsmálaráðherra hvað skráninguna varðar.