148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

smálán.

[16:28]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og þeim þingmönnum sem hér hafa tekið til máls í þessari umræðu sem ég held að sé mjög mikilvæg. Ég er búin að tala um þetta í nokkur ár og maður hefur auðvitað af þessu miklar áhyggjur, sérstaklega gagnvart yngra fólkinu. Sá vandi hefur litið dagsins ljós eins og kom fram og hefur komið fram í umræðunni hjá umboðsmanni skuldara. Ég fagna því að hér eigi að skipa starfshóp til að fara ofan í þetta og taka m.a. fyrir þær spurningar sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra. Mér finnst samt að við eigum að taka strax upp það sem nágrannaþjóðirnar hafa gert, þ.e. að setja á leyfisskyldu. Um leið og það er gert erum við búin að leysa svo ótrúlega margt annað. Að mínu mati þarf ekkert að bíða neitt sérstaklega mikið með það en þó má vel vera að það sé talið heppilegra að fara meira heildstætt yfir þetta. Ég hefði viljað sjá það gert fyrr.

Það er ljóst að ramminn núna er ófullnægjandi. Við þurfum að hafa hann miklum mun skýrari. Kennitöluflakk er í þessum geira eins og mörgum öðrum og það að hægt sé að taka lán í nafni annars aðila er algjörlega óboðlegt. Það hefur verið gert, ekki einu sinni og ekki tvisvar heldur ítrekað. Foreldrar hafa komið fram með unga krakka sem einhverjir hafa komist í símann hjá og getað tekið lán o.s.frv. Það er ýmislegt sem hefur gerst.

Auðvitað er margt þarna undir. Þessi fyrirtæki þurfa t.d. ekki að gefa upp skuldastöðu einstaklinga eins og önnur fjármálafyrirtæki. Ef ég er að fara í greiðslumat hjá einhverjum banka vegna þess að ég ætla að fara að kaupa mér húsnæði get ég verið með 4 millj. kr. smálánaskuld á bakinu og bankinn minn veit það ekki og getur ekki tekið tillit til þess. Svo lendir allt í vitleysu þegar kemur að því að þurfa að standa skil. (Forseti hringir.)

Við þurfum að gera þessa starfsemi leyfisskylda og setja hana undir þau lög sem aðrar fjármálastofnanir lúta því að þetta er ekkert annað en fjármálastarfsemi.