149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:50]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er einfaldlega rangt hjá hv. þingmanni að ég hafi talað um góða og slæma útgerðarmenn. Ég talaði um útgerðarform sem byggju við verri rekstraraðstæður. Það geta verið utanaðkomandi aðstæður sem hafa ekkert með hæfni einstakra útgerðarmanna að gera. Svo getur líka vel verið að sumir séu góðir og aðrir slæmir, eins og í öllum atvinnugreinum. Við það glíma allar atvinnugreinar.

Nei, ég held ekki að endalaus samþjöppun sé af hinu góða, enda höfum við mörg tæki til að bregðast við því, m.a. að setja lög um það hver eignarhlutur fólks getur verið í þessari grein. Það er alveg sjálfsagt að gera það. Það er heldur ekki til umfjöllunar þarna og við erum margbúin að gagnrýna það, t.d. hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, að það hafi kannski verið fullbratt niður brekkuna farið að rúlla úr 60% markmiðinu í 33%, eins og Vinstri græn gerðu.