149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[23:00]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Jú, ég þekki hvaða leikreglur gilda. Tökum sem dæmi mann úti á landi yngri en 67 ára sem býr við fötlun. Þar sem hann býr er dvalarstofnun og við vitum alveg hvaða kraftar fara í gang. Jú, það er þetta með veruleikann, hann er oft óþægilegur, ekki síst í okkar umhverfi sem höfum áhrif á lagasmíðar. Það er ekki víst að það sé fýsilegur kostur fyrir alla að bjóða ungu fólki upp á það að vera á hjúkrunarheimili með rígfullorðnu fólki í áratugi og það sama á við um dagdvalarrými. Við höfum auðvitað dæmi um sérhæfð hjúkrunarrými fyrir fólk með ákveðinn veikleika. Við þyrftum að huga meira að því, eða að aðgreina starfseiningar, hjúkrunarheimilin, þannig að fólk geti búið með sæmilegri reisn innan um fólk á líku reki. Þetta er alveg það sama með dagdvalarþjónustuna sem við þurfum að efla miklu meira sem er hluti af hinni opnu þjónustu. Við erum með fólk sem kennir heilabilunar og við erum með fólk sem er með annars konar líkamlega eða andlega sjúkdóma, sem ætti að eiga samleið frekar en að vera í óskilgreindu þjónusturými.