149. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

185. mál
[23:02]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég má til með að taka aðeins til máls um þetta frumvarp um heilbrigðisþjónustu þar sem verið er að fjalla um málefni aldraðra og sjúkratryggingar er varða dagdvöl og dvalarrými.

Mér þykja búnar að vera áhugaverðar umræður í kvöld um þetta mál, Ástæðan fyrir því að ég ákvað að taka til máls er er sú að ég bý í litlu sveitarfélagi og þekki til fleiri minni sveitarfélaga þar sem við stöndum einmitt frammi fyrir því sem hér er rætt um, m.a. af hv. síðasta ræðumanni, held ég, um að þá þyrfti jafnvel að flytja fólk búferlum ef það vildi ekki eða hefði ekki tækifæri til að nýta sér dvalarrými á staðnum. Ég þekki slík mál mjög vel og ég tek undir mjög margt sem hér hefur komið fram varðandi það að auðvitað viljum við að sem flestir geti notið þess að hafa notendastýrða persónulega aðstoð, sérstaklega yngra fólk. Mér finnst svolítið mikið hafa verið talað um fötlun, m.a. í minnihlutaálitinu, en ekki endilega bara að fólk geti verið veikt og geti af ýmsum ástæðum ekki búið eitt heima eða eitthvað slíkt. Það þarf ekki að innibera sérstaklega fötlun, en ég tek alveg undir það sem þar kemur fram og mér heyrist að við séum öll sammála um þá nálgun að fólk geti búið sem lengst heima hjá sér með einhverri slíkri aðstoð.

Mér finnst svolítið sérstakt að um leið og sagt er að það séu ekki mjög margir einstaklingar sem um er rætt er samt talað um að það geti haft mikil áhrif á biðlista. Mér finnst pínulítið ósamræmi felast í því. Ég held að við verðum að horfast í augu við það að þegar við búum í landi sem er samsett eins og okkar þar sem byggðin er mjög dreifð og oft í mjög litlum þorpum höfum við jafnvel ekki mannskap þó að við vildum gjarnan bjóða upp á þjónustuna, þ.e. notendastýrða persónulega aðstoð. Það er ekki einu sinni mannskapur til að sinna heimilisþjónustu á vegum sveitarfélaganna.

Mér finnst við aðeins vera að gjaldfella dvalarheimilin okkar með því að segja að það sé engan veginn hægt að bregðast við því að taka á móti einstaklingum sem eru á ólíkum aldri. Auðvitað er ég í hjarta mínu sammála því að mjög ungt fólk á ekki að þurfa að eyða ævi sinni á hjúkrunarheimili þar sem fyrst og fremst er verið að bjóða þjónustu fyrir eldra fólk. Ég held að það séu almennt undantekningar. Það er hægt að sníða úrræði ótrúlega vel að einstaklingum inni á þessum dvalarheimilum, ég hef séð það gert þannig að ég vil koma því til varnar að þetta eru úrræði sem ég held að sérstaklega minni sveitarfélögin hafi þurft að laga sig að. Ég tek undir orð hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar hvað varðar það að við verðum að leysa verkefnið sem við okkur blasir núna.

Gjarnan tölum við um að við séum að byggja hjúkrunarheimili eða að gera eitthvað langt inn í framtíðina sem við erum ekki að leysa en þurfum að leysa núna. Af því að hér eru nefndir biðlistar erum við auðvitað að reyna að taka á þessu máli núna. Það er mjög mikilvægt.

Síðan verðum við að horfa inn í framtíðina með það að leiðarljósi þar sem því verður við komið að við getum stýrt þessari þjónustu nær þeirri hugmyndafræði sem hér hefur verið hvað mest rædd og tekið tillit til, hvort sem er kynslóðabils- eða fjölskylduaðstæðna eða hvað það nú er, samskipti við fjölskyldur, börn og annað slíkt.

Mér hefur fundist umræðan pínulítið snúast um, eins og hér hefur aðeins verið rakið, að þetta sé ekkert mál og þá vil ég árétta að það er líka ábyrgðarhluti að ætla ekki að leysa þetta með því að samþykkja ekki frumvarpið. Þá erum við á nákvæmlega sama stað og við höfum verið og höfum gagnrýnt, að það sé verið að gera eitthvað án heimildar. Ég hvet minni hlutann til að íhuga hvort það er meiri ávinningur af því að þetta gangi í gegn eða hafa ástandið óbreytt. Því hljótum við alltaf að þurfa að velta fyrir okkur.

Ég vildi bara rétt drepa á þetta mál af því að ég þekki af eigin reynslu, þar sem ég hef búið í svona litlum samfélögum, að það er alls ekki einfalt mál að leysa þetta. Þó að vilji sé fyrir hendi hjá sveitarfélögunum, jafnvel einstaklingunum sjálfum, til að hafa hlutina með öðrum hætti er það bara því miður þannig að við búum í samfélagi sem er að eldast, og minni samfélögin enn frekar en stórhöfuðborgarsvæðið eðli málsins samkvæmt eða þau samfélög sem stærri eru. Þetta verður a.m.k. ekki leyst með því að gera ekki neitt þannig að ég hvet hv. þingmenn til að velta þessu vel fyrir sér áður en þeir greiða atkvæði um þetta mál.