150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

104. mál
[10:50]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka hv. atvinnuveganefnd fyrir að vera búin að afgreiða þetta mál sem sú sem hér stendur og aðrir félagar í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins flytja saman. Ég held að þetta sé til mikilla bóta. Það má í rauninni segja að smáósanngirni sé í því fólgin að hingað til höfum við getað endurgreitt hluta af kostnaði sem fellur til vegna kvikmyndagerðar þó að hluti af starfseminni eigi sér stað utan Íslands, þ.e. innan EES — það er til þess að það stuðningskerfi sem við höfum byggt upp í kringum kvikmyndagerðina standist EES-reglugerðir — en okkar næstu nágrannar á Grænlandi og í Færeyjum hafi þar af leiðandi ekki verið inni í þessari púllíu, ef svo má segja. Mig langar að geta þess að hugmyndin að frumvarpinu kemur einmitt frá fólki í kvikmyndageiranum og fólki sem tengist Grænlandi sérstaklega. Einkum hefur Grænland verið mjög áhugaverður staður til að fara í kvikmyndatökur, enda landslagið þar einstakt á allan hátt. Þess vegna held ég að hér séu mjög mikil tækifæri.

Mig langar líka að benda á að þó að við séum að tala um stuðningskerfi í kringum kvikmyndageirann er þetta oftast útflutningsgrein og það er náttúrlega þannig að útflutningsgreinar greiða ekki virðisaukaskatt þegar flutt er út vara en aftur á móti má fá endurgreiddan virðisaukann af aðföngum. Þar af leiðandi er hægt að líta þetta sömu augum þegar við erum að tala um kvikmyndageirann. Þá finnst mér líka mikilvægt að geta þess að hér erum við að tala um hugvitsdrifnar, skapandi greinar sem eru hluti af þeim atvinnugreinum sem alla vega ég tel að við þurfum að leggja mikla áherslu á og að framtíð okkar efnahagslega sé fyrst og fremst fólgin í því að virkja hugvitið og sköpunargáfuna.

Mig langar því að þakka hv. atvinnuveganefnd fyrir þetta nefndarálit og að hafa afgreitt þetta og segi eins og hv. formaður atvinnuveganefndar, Lilja Rafney Magnúsdóttir: Ég vona innilega að okkur lánist að afgreiða þetta fyrir jól og geta tilkynnt vinum okkar á Grænlandi og í Færeyjum það þegar við hittumst á þemaráðstefnu í Færeyjum.