150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[13:54]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Með leyfi forseta:

„Allir málaflokkar sem varða fatlað fólk og örorkulífeyrisþega eru sveltir …“

Þetta er bein tilvitnun í umsögn Öryrkjabandalagsins um fjárlagafrumvarp þessarar ríkisstjórnar. Hér í fjáraukanum er verið að bæta örlítið við og þetta er örlítið, herra forseti, þetta eru einungis 2% af því sem stjórnarandstaðan lagði hér fram um daginn og þingmenn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks felldu. Enn eru öryrkjar skildir eftir, bæði þegar kemur að kjarabótum sem aðrir hópar fengu í lífskjarasamningum og þegar kemur að því að skilja öryrkja eftir langt undir lágmarkslaunum. Við getum gert miklu betur en það sem þessi litla breytingartillaga hljóðar upp á en til samanburðar fá 20.000 öryrkjar hér samanlagt ígildi tæplega fjögurra starfslokasamninga eins ríkislögreglustjóra.

Herra forseti. Það er ekki sama hver biður þessa ríkisstjórn um pening.