150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[14:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka þetta andsvar. Það er gaman að ræða málið með þessum hætti og ég vil draga það fram að þær tölur sem voru dregnar saman varðandi það þegar innflutningur var í rauninni gefinn frjáls á einmitt á agúrkum, tómötum og papriku, sögðu að hlutdeild innanlandsframleiðslu væri um 80%, minnir mig, eða tæplega 80%. Eftir að innflutningur var gefinn frjáls fór talan yfir það. Þá jókst neysla á innlendum vörum þannig að frelsið varð til þess að ýta undir enn frekari neyslu og vitundin um að eiga valkosti að utan jók samt neysluna á íslenskum vörum. Síðan hefur þetta dregist aðeins saman, m.a. með tilkomu Costco.

Það sem er aldrei nógu oft sagt er að hér þarf upprunamerking að vera í lagi. Hún er bara ekki í lagi eins og er í dag og íslenskar búðir og íslenskir innflytjendur verða að taka sig á hvað það varðar. Það er ömurlegt að sjá þegar menn eru að setja til að mynda sveppi frá Hollandi í einhverjar umbúðir undir íslenskum fána. Hvern er verið að blekkja þá? Þar verða innflytjendur að passa sig og gæta sín. Það þýðir ekki bara að gagnrýna aðra og líta ekki í eigin barm. Um leið og ég undirstrika það að ég vil algjört tollfrelsi vil ég hvetja alla til að gæta að sinni ábyrgð í frelsinu. Frelsinu fylgir ábyrgð og ábyrgðarkeðjan verður að vera alls staðar traust, frá framleiðanda til neytenda og til allra milliliða á leiðinni, þannig að það sé sagt.

Það er áhugavert að fylgjast með því hvernig þróunin hefur verið í tómötum og hún er ekkert ósvipuð og hefur verið í sjávarútvegi: Veitt minna en verðmætaaukningin hefur samt orðið meiri. (Forseti hringir.) Það er það sem við stóðum ánægjulega frammi fyrir akkúrat varðandi tómatana, að þótt kannski hafi hægst ögn á framleiðslu fást meiri verðmæti fyrir dásamlega íslenska vöru.