150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[14:47]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, já, við erum sjálfsagt óskaplega sammála um margt, m.a. að taka landbúnað inn í alla umræðu um loftslagsmál. Auðvitað er verið að gera það nú til dags meira eða minna að einhverju leyti af öllum flokkum á þingi. Það er verið að vinna að matvælastefnu. Hvað skyldi hún kallast á við eða upptaka búvörusamninga og það sem ræðum seinna í dag um sauðfjárrækt og annað í þeim dúr? Við erum að þessu en við erum að tala hér um innflutning, við erum ekki að tala um innlenda matvælaframleiðslu og kolefnisspor hennar heldur fyrst og fremst um hvernig loftslagsmálin setja hömlur á fríverslun út og suður, við skulum bara orða það þannig, ekki bara með landbúnaðarvörur heldur alla skapaða hluti. Ég held að menn séu löngu búnir að uppgötva að verslunarmynstur og neyslumynstur eins og það er gengur ekki upp. Þó að mér þyki gott nautakjöt frá Þýskalandi eða ástaraldin frá Madagaskar er ekki þar með sagt að það sé sjálfsagt mál að það sé flutt inn.

Það sem ég var að auglýsa eftir er í raun og veru að menn taki það alvarlega og komi með einhver rök, við getum ekki farið að ræða hér um einstaka liði þessa kolefnisspors, fyrir því eða skilgreini hvernig þessar hömlur eru í raun og veru, hvernig þær birtast og hvað það þýðir fyrir innflutningsstefnu matvæla á Íslandi. Við vitum alveg að það getur vel verið að þegar flutningar eru orðnir umhverfisvænir eftir 30–50 ár með orkuskiptum á sjó og flugvélum o.s.frv. sé myndin önnur. Núna þýðir þetta í mínum augum ákveðna vernd innlendrar framleiðslu og ákveðnar hömlur á innflutningi.