150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

búvörulög.

433. mál
[15:48]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Í 1. gr. frumvarpsins segir að 2. og 3. mgr. 53. gr. laganna falli brott. Þetta frumvarp snýst um að viðhalda tollkvótum í framleiðslu mjólkur. Það á að viðhalda mjólkurkvótakerfi. Samkeppniseftirlitið talaði alveg skýrt, það þýðir að áhrifin eru framleiðsluletjandi. Þetta minnkar framleiðslu á mjólk og hefur þar af leiðandi áhrif á neytandann á þeim forsendum. Verðið er þá hærra út frá þeim forsendum. Það þýðir líka að til að kaupa tollkvóta til að komast inn í greinina — það er eitthvað aðeins ódýrara fyrir nýliða sem er ágætt, þá kemur eitthvað á móti — annaðhvort til að stækka við sig eða koma nýr inn í greinina þarf að nota fjármagn og nánast undantekningarlaust er þar um að ræða lánsfjármagn, þ.e. Samkeppniseftirlitið segir að þetta muni þýða meiri skuldsetningu í greininni. Þetta er framseljanlegt mjólkurkvótakerfi sem á að viðhalda. Í tíð Sigurðar Inga Jóhannssonar, ráðherra málaflokksins 2016, átti að færa sig út úr þessu kerfi. Nú er ákveðið að snúa til baka og festa kerfið aftur í sessi. Að sjálfsögðu erum við á móti því þannig að við munum greiða atkvæði á móti mjólkurkvótakerfinu í 1. gr.

Í 2. gr. er talað um 54. gr. laganna og þar er verið að fella út orðalag sem var sett inn í tíð Sigurður Inga Jóhannssonar sem hæstv. ráðherra málaflokksins, orðalag sem bannar framsal á mjólkurkvótanum þannig að framsal á mjólkurkvóta verður aftur heimilt. Við vitum hvað það þýðir fyrir skuldasöfnun o.s.frv. þannig að við erum að sjálfsögðu á móti þessu líka.

3. gr. er um að lögin öðlist gildi 1. janúar 2020, strax eftir áramótin. Þetta er vont mál sem viðheldur tollkvótum. Hvernig var málsmeðferðin í þinginu? Hún var nánast engin. Málið kom inn í nefndina 3. desember, ekki voru sendar út umsagnarbeiðnir sem er nánast óheyrt í málum sem eru afgreidd á þingi. Yfirleitt þegar það er ekki eru a.m.k. kallaðir að borðinu þeir hagsmunaaðilar sem þetta mál varðar. Hverjir mættu fyrir nefndina? Málið var tekið fyrir á einum fundi og þá kom ráðuneytið til að útskýra frumvarpið, það er yfirleitt þannig í upphafi, svo voru hagsmunaaðilar í framleiðslunni og Samkeppniseftirlitið. Meiri hluti nefndarinnar segir í nefndaráliti sínu að almennt hafi komið fram ánægja um frumvarpið fyrir nefndinni. Meiri hluti þeirra sem komu er hagsmunaaðilar sem vilja viðhalda framsali í núverandi mjólkurkvótakerfi og auðvitað eru hagsmunaaðilar ánægðir með það, vildu hafa það svoleiðis og kjósa það. Samkeppniseftirlitið segir: Nei, þetta er slæmt í því sem lýtur að samkeppni og þar af leiðandi fyrir neytandann. Neytendasamtökin voru ekki boðuð. Það var bara sagt: Já, þau komu að ferlinu einhvern tímann fyrr. Það breytir því hins vegar ekki að nánast alltaf eru kallaðir til hagsmunaaðilar að svona málum, sér í lagi þegar ekki eru sendar út beiðnir um umsagnir um málið við vinnslu nefndarinnar á máli. Vinnsla nefndarinnar á málinu var bara að kalla til hagsmunaaðila og Samkeppniseftirlitið og segja: Ókei, hvernig finnst ykkur þetta? Hagsmunaaðilunum fannst það frábært. Samkeppniseftirlitið sagði: Nei, þetta er ekki gott mál. Það var öll vinnsla nefndarinnar á þessu máli og svo er villandi framsett af meiri hlutann að segja að almenn ánægja sé um málið þegar við fengum ekki einu sinni afstöðu við meðferðina hjá Neytendasamtökunum, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum atvinnulífsins eða ASÍ. Þar eru aðilar sem eru í búvöruframleiðslu en líka aðilar sem starfa í verslun, þjónustu o.s.frv. Það eru þeir aðilar sem gætu best vegið og metið hagsmunina og tekið neytendahliðina líka.

Þetta vantaði allt í þessa umræðu þannig að það sem er að gerast með þessu frumvarpi er að ráðherra og meiri hluti atvinnuveganefndar eru í mjög takmörkuðu ferli við vinnu inni á þingi við að keyra þetta mál í gegn sem mun festa aftur í sessi framsal á mjólkurkvótakerfi sem skaðar hagsmuni neytenda.