150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[18:37]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætlaði að halda reiðilestur um vinnubrögðin í kringum þetta mál en í stað þess tek ég heils hugar undir orð hv. formanns velferðarnefndar, Helgu Völu Helgadóttur, enda er þessi flýtimeðferð búin að gera okkur ofboðslega erfitt fyrir við að skoða t.d. umsagnir. Það eru ekki bara umsagnaraðilar sem fá stuttan tíma til þess að rýna málið og skila inn umsögnum heldur fáum við stuttan tíma til að rýna í umsagnir og við fáum einnig stuttan tíma til að kalla eftir gögnum frá ráðuneytinu og rýna í þau gögn sem koma. Allt í kringum þessa flýtimeðferð gerir okkur, löggjafanum, mjög erfitt fyrir að vinna málið á fullnægjandi hátt og það er það sem ég hef áhyggjur af.

Það sem mig langar kannski mest til að ræða varðandi þessa lengingu — sem ég fagna svo sannarlega, það er alveg kominn tími til að við lengjum fæðingarorlofið og mikil þörf á því — er þessi skipting og það að við skulum vera að taka þetta í tvennu lagi. Núna í sumar setti hæstv. félags- og barnamálaráðherra saman nefnd til að gera heildarendurskoðun á fæðingarorlofslögum, sem er einnig mjög gott, en það er verið að gera breytinguna í tvennu lagi. Mér finnst þörf á því þegar við erum að fara í heildarskoðun að það sé skoðað meðfram henni hvernig við skiptum upp lengingu á fæðingarorlofinu. Mér finnst fyrst og fremst óþægilegt að verið sé að gera þetta í tvennu lagi.

Hitt sem mig langar til að segja varðar þessa nefnd sem hefur verið sett saman og var sett saman í sumar. Ég ætla bara að lesa, með leyfi forseta, úr tilkynningu Stjórnarráðsins varðandi hana en þar segir, með leyfi forseta:

„Nefndin mun hafa það hlutverk að endurskoða lögin í heild sinni og vinna frumvarp þar sem meðal annars verði brugðist við fyrirliggjandi álitum frá umboðsmanni Alþingis. Jafnframt er gert ráð fyrir að í frumvarpinu verði kveðið á um lengingu á samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs í tólf mánuði“ — mig langar til að árétta að þarna stendur samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs í tólf mánuði — „vegna barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar. Er það í samræmi við stefnu stjórnvalda þess efnis að efla fæðingarorlofskerfið en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs verði lengdur.“

Ég ætla ekki að lesa restina en þarna er verið að setja rammann utan um þá vinnu sem mun eiga sér stað í nefndinni. Þar er bara talað um rétt foreldra. Það er hvergi talað um rétt barna og ekki nóg með það heldur sitja í þessari nefnd einungis aðilar vinnumarkaðarins, fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneytið. Þetta er allur fókus þeirrar vinnu sem á sér stað í þessari nefnd og ég hef miklar áhyggjur af þessu af því að í 2. gr. barnasáttmálans, ef ég man rétt, er talað um að það megi ekki mismuna börnum. Ég hefði talið, og það kemur fram í markmiðsgrein fæðingarorlofslaganna, að markmiðið sé að tryggja samvist barna með foreldrum. Ég hef áhyggjur af því að í þeirri nefnd sem á að fara með það mikilvæga hlutverk að vera með heildarendurskoðun á þessum lögum vanti algerlega talsmenn barna. Af hverju er umboðsmaður barna ekki í nefndinni? Af hverju er enginn fulltrúi einstæðra foreldra? Af hverju eru í nefndinni ekki fagaðilar í t.d. þroska barna og hvað sé börnum fyrir bestu? Hver heldur því á lofti í nefndarvinnunni?

Ef við horfum fram á það að skiptinguna eigi að festa þannig að hvort foreldri fái einhverja mánuði fasta og þessum sameiginlegu eða sveigjanlegu mánuðum fækki, þá erum við að halda í mismunun barna, þ.e. börn sem eiga eitt foreldri eða börn sem eiga tvö. Við getum horft á hvernig við viljum hafa hlutina en svo þurfum við að horfa á raunveruleikann. Í fullkomnum heimi tækju feður auðvitað jafn langt orlof og mæður. En það er bara ekki þannig. Börn einstæðra foreldra eða börn sem kannski eiga foreldri sem hafa takmarkaðan áhuga eða getu á að taka þátt í uppeldinu og taka ekki sitt fæðingarorlof, fá mun minni tíma með foreldri sínu en börn sem eiga tvö foreldri og þarna erum við að mismuna.

Þetta eru sjónarmið sem mér finnst gífurlega mikilvægt að séu rædd í þaula í nefndarvinnunni. Ég kem hingað upp og ég fagna því að við séum að lengja orlofið. En á sama tíma hvet ég ráðherra í raun og veru til að endurskoða hverjir sitji í þessari nefnd og koma fleiri sjónarmiðum þar inn vegna þess að annars hef ég áhyggjur af því að sú niðurstaða eða sú skýrsla sem kemur frá nefndinni verði mjög einhliða og muni hafa allan fókus á þarfir vinnumarkaðarins, á jafnréttisbaráttuna, sem ég er ekki að grafa undan á neinn hátt, jafnréttisbaráttan er gífurlega mikilvæg. En við verðum að horfa líka til þess hvað sé barninu fyrir bestu. Það má ekki týnast og sérstaklega þegar kemur að fæðingarorlofi og að tryggja rétt barnsins til samvista við foreldra sína og mismuna ekki börnum.