150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[18:53]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Mig langar kannski að byrja á því að nefna, svo það sé sagt í þessari umræðu, hvað fæðingarorlofskerfið á Íslandi er frábært. Þrátt fyrir alla sína annmarka og allt sem betur má fara var það svo stórkostlegt skref sem stigið var fyrir nokkrum áratugum að koma þessu kerfi á. Það hefur verið bætt — kannski er ekki hægt að segja að jöfnum skrefum því að langt hefur verið á milli skrefanna — í tímans rás þannig að í dag er kerfið, þrátt fyrir allt sem betur má fara, eitt það besta sem í boði er í heimi.

Hér erum við dálítið mikið að ræða skiptingu fæðingarorlofs á milli foreldra. Það er aftur eitt af því sem Ísland hefur gert með öðrum hætti en gengur og gerist og þykir til eftirbreytni, að eyrnamerkja drjúgan hluta fæðingarorlofs hvoru foreldri fyrir sig og vera síðan með pott sem er framseljanlegur á milli þeirra. Þetta skref var stigið fyrir 20 árum þegar í önnur 20 ár hafði verið valkvætt fæðingarorlof fyrir feður sem enginn nýtti. Það tók enginn faðir fæðingarorlof fyrr en Alþingi hér í þessum sal tók þá ákvörðun að ef feður tækju ekki sína mánuði þá féllu þeir bara dauðir niður. Það er nefnilega stundum svo leiðinlegt að þurfa að horfast í augu við að það er ekki bara vinnumarkaðurinn sem er kynjaður heldur líka verkaskipting innan náinna sambanda og inni á heimilunum. Uppeldi barna er gríðarlega kynjað. Ef enginn rammi væri settur í þessum sal utan um fæðingarorlofskerfið, sem ég vil segja að skikki feður til að taka sitt orlof, þá myndu þeir ekki gera það, því miður, þrátt fyrir góðan vilja.

Af hverju erum við að þessu? Við megum líka spyrja okkur stundum að því. Markmiðsgrein laganna segir að þeim sé ætlað að tryggja barni samvistir við báða foreldra og ætlað að gera bæði konum og körlum kleift að „samræma fjölskyldu- og atvinnulíf“. Seinni punktinum náum við fram með því að mæður og feður séu nokkurn veginn jafn lengi utan vinnumarkaðar í tengslum við hverja fæðingu, því að sú fjarvera hefur auðvitað áhrif á áunnin réttindi og það skekkir þann launamun sem er í samfélaginu nú þegar enn meira ef konur eru hlutfallslega miklu lengur frá vinnu en karlar vegna fæðinga barna.

Svo er fyrsta markmiðið, sem er að tryggja barni samvistir við báða foreldra, sem ég vil segja að sé í rauninni gamalt merki þess að velsældarhagkerfið sé ekki nýtt fyrirbæri í þessum sal. Þetta er ákvæði sem er sett inn vegna þess að hamingja fólks eykst einfaldlega með því að taka virkan þátt í uppeldi barna sinna, hvort sem það eru feður eða mæður. Hagsmuna barna er best gætt með því að tryggja samveru og náið samband við báða foreldra. Þannig myndast tengsl sem allir aðilar í fjölskyldunni búa að um aldur og ævi.

Einn helsti styrkleiki fæðingarorlofskerfisins hér á landi er sú sterka tenging sem er á milli þess og verkalýðshreyfingarinnar. Það er fjármagnað með hlutfalli af tryggingagjaldi af launum og er þar með eitt sterkast fjármagnaða úrræði hins opinbera og siglir nokkuð lygnan sjó í gegnum árin. Þetta er hins vegar mögulega að verða, varðandi ákveðna hópa, einn af veikleikum kerfisins líka. Eins og komið hefur fram í umræðunni í dag eru hópar sem eru ekki undir verndarvæng verkalýðshreyfingarinnar, sem kerfið hefur ekki náð almennilega utan um. Má t.d. nefna fólk í námi, fólk utan vinnumarkaðar, fólk sem er nýflutt til landsins og hefur ekki áunnið sér þau réttindi sem fólk vinnur sér inn á vinnumarkaði. Það fólk lendir allt saman á fæðingarstyrk sem er allt of lágur til að fólk geti upplifað fyrstu mánuðina í ævi barns síns áhyggjulaust. Svo er það það sem hv. þm. Halldóra Mogensen nefndi, óhefðbundin fjölskyldumynstur, fjölskyldur, svo maður taki dæmi, þar sem faðir gengst ekki við barni. Sú einstæða móðir nýtur ekki sömu verndar innan kerfisins og einstæð móðir sem eignast barn getið með tæknifrjóvgun. Það eru ýmis smáatriði af þessu tagi sem þarf að taka á og hafa komið oftar og oftar í ljós á síðustu árum og eru auðvitað ástæða þess að yfir stendur heildarendurskoðun á lögunum — vegna þess að heildarendurskoðunar er þörf.

Frumvarpið sem liggur fyrir þinginu snýst ekki um þessi smáatriði, ef svo má segja, heldur um stærstu línurnar, heildartímalengd fæðingarorlofs. Það er gríðarlegt fagnaðarefni að nú hilli loksins undir að fæðingarorlof verði lengt upp í 12 mánuði. Það er löngu tímabært, svo maður noti mildasta orðalagið, þegar við stöndum hér í þessum sal sjö árum eftir að fæðingarorlof var lengt upp í 12 mánuði. Þeirri lengingu var síðan snúið við ári síðar af þeirri ríkisstjórn sem hafði tekið við eftir kosningarnar 2013. En stundum gerast góðir hlutir hægt. Það er áhugavert, þar sem hér hefur verið talað um skiptinguna, að líta til þess að þingið ákvað árið 2012 að 12 mánuðirnir skyldu skiptast þannig að hvort foreldri fengi fimm mánuði fyrir sig og að tveir mánuðir skyldu vera framseljanlegir. Sama niðurstaða kemur fram í tillögum sem starfshópur um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum skilaði árið 2016. Þar var þessi fimm, fimm, tveir skipting niðurstaðan. Og að sömu niðurstöðu hefur hæstv. félags- og barnamálaráðherra komist. En nú bíðum við þess að sjá hver lendingin verði hjá velferðarnefnd á næstu dögum. Þetta er eitthvað sem þarf ígrundun því að það er ekki endilega augljóst í þessu. Verkalýðshreyfingin leggur til að þessu sé skipt hnífjafnt í sex mánuði fyrir hvort foreldri og enginn hluti sé framseljanlegur, enda tíðkist það ekki um réttindi á vinnumarkaði að þau séu framseljanleg að nokkru leyti. Aðrir vilja stækka sameiginlega pottinn, en þar verð ég alltaf dálítið stressaður vegna þess að tölurnar sýna okkur hvað gerist. Þá erum við að búa til meiri skekkju í kerfinu. Í dag skiptist níu mánaða fæðingarorlof þannig að foreldrar taka þrjá mánuði hvort og geta skipt á milli sín þremur mánuðum. Reyndin er sú að vel ríflega 90% mæðra taka sameiginlegu mánuðina alla þannig að í raun erum við með sex, þrjú kerfi í dag, ef við námundum. Í raun erum við ekki einu sinni með sex, þrjú kerfi vegna þess að mæður, og það vegna þeirrar kynjaskekkju sem er í samfélaginu, taka sína sex mánuði, teygja þá yfir segjum níu mánuði, prjóna síðan sumarfríið við og eiga kannski eitthvert orlof inni og ná þannig að teygja þetta sex mánaða orlof upp í kannski ár, sem er næstum það sem dugar til að hoppa yfir í dagvistun hjá dagmömmu eða ungbarnaleikskóla, sem er hin hliðin á þessum peningi sem verður að laga og er vel að merkja hin megintillagan í þessari þriggja ára gömlu skýrslu starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum, annað löngu tímabært skref að stíga.

Þess vegna hallast ég að því að sú lending sem hefur birst æ ofan í æ varðandi það hvernig skipta eigi 12 mánuðum á milli foreldra, sem sé fimm, fimm, tveir sem varð niðurstaðan í þingsal 2012, sem var niðurstaða starfshóps 2016 og sem var niðurstaða ráðherra sem lagði fram frumvarp nú í haust, sé mögulega skásta leiðin til að skipta þessum 12 mánuðum. Vegna þeirrar afstöðu minnar brá mér nokkuð þegar ég sá breytingartillögu velferðarnefndar sem stækkaði sameiginlega pottinn og lagði þess vegna fram breytingartillögu við þær tillögur en fagna því að nú eigi að skoða þetta betur innan velferðarnefndar og vona að tími gefist til að gera það almennilega á þeim fáu dögum sem við eigum eftir.

Herra forseti. Svo að formlega sé frá því sagt lít ég svo á að sú breytingartillaga sem ég lagði fram við málið í morgun falli um sjálfa sig þar sem tillaga meiri hluta velferðarnefndar var dregin til baka. Ég óska nefndinni alls hins besta í þeirri vinnu sem er fram undan og vona að niðurstaðan verði mjög góð.