150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

vegalög.

471. mál
[19:37]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á vegalögum, nr. 80/2007, með síðari breytingum, um framlengingu. Framlengdur er frestur um yfirfærslu skilavega frá Vegagerðinni til sveitarfélaga. Frumvarpið er flutt af umhverfis- og samgöngunefnd og ég mæli sem sagt fyrir því fyrir hönd nefndarinnar.

Frumvarpið sjálft er ákaflega einfalt, aðeins tvær greinar. Í stað ártalsins 2019 í ákvæði til bráðabirgða í lögunum kemur ártalið 2020 og 2. gr. hljóðar upp á að lögin öðlist þegar gildi þegar frumvarpið verður samþykkt.

Í greinargerðinni er svo fjallað um hvað í þessu felst en í stuttu máli er hægt að útskýra það þannig að heimild til flutnings svokallaðra skilavega sem ætlunin hefur verið að flytjist í umsjá sveitarfélaga nokkuð víða um land frá Vegagerðinni framlengist um eitt ár. Það ár gæti þá nýst Vegagerðinni til að viðhalda vegunum, koma ástandi þeirra í betra horf þar sem það á við og til þess að semja við sveitarfélögin um það hvernig þessi flutningur fer fram.

Ég fer yfir greinargerðina sem er örstutt. Samkvæmt vegalögum skal Vegagerðin sjá um gerð og viðhald þjóðvega sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar. Sveitarfélögin skulu hafa umsjón með sveitarfélagsvegum en það eru vegir sem teljast ekki þjóðvegir samkvæmt 8. gr. laganna. Þegar vegalögin voru sett árið 2007 hófust samningaviðræður milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaga um yfirfærslu vega sem ekki flokkast sem þjóðvegir samkvæmt skilgreiningu laganna til viðkomandi sveitarfélaga. Þessar viðræður báru ekki árangur 2007 og hafa ekki enn borið árangur, í það minnsta ekki í öllum tilfellum. Í kjölfar endurskoðunar á vegalögum árið 2014 var samþykkt bráðabirgðaákvæði þar sem tilgreint er að Vegagerðinni sé heimilt að semja við sveitarfélögin um yfirfærslu vega sem færðust frá Vegagerðinni til sveitarfélaga við gildistöku laganna. Samkvæmt ákvæðinu er Vegagerðinni heimilt að annast veghald þessara vega til ársloka 2019. Vegagerðin og sveitarfélögin hafa ekki gert samning um veghaldið en Vegagerðin hefur annast veghaldið frá því að lögin voru sett, þ.e. alveg frá 2007.

Með frumvarpinu er lagt til að framlengdur verði sá tími sem Vegagerðin hefur samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu til að semja við sveitarfélögin um yfirfærslu veganna frá Vegagerðinni til sveitarfélaga. Lagt er til að gildistími heimildarinnar verði lengdur um eitt ár, sem sagt til ársloka 2020. Stefnt er að því að ráðuneytið, Vegagerðin, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Samband íslenskra sveitarfélaga undirriti viljayfirlýsingu fyrir næstu áramót þar sem fram komi sá vilji aðila að ljúka þessari yfirfærslu sem hefur sem sagt staðið til frá allt frá árinu 2007

Verði frumvarpið að lögum mun Vegagerðin áfram um sinn standa straum af kostnaði við veghald vega sem færðust úr flokki stofnvega þegar lögin tóku gildi þar til yfirfærslunni er lokið, þó ekki lengur en til ársloka 2020.

Ég legg þetta frumvarp hér með fram og legg til að það verði samþykkt.