151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera dálítið stílbrot hér í þessari stuttu ræðu og hrósa eins mörgum og ég get á tveimur mínútum sem ég hef hér. Ég vil byrja á sóttvarnayfirvöldum sem hafa staðið sig með fádæmum vel. Það hefur allt gengið vel, allt gengið eftir. Það er alveg sama á hvaða mælikvarða er mælt ef við berum okkur saman við önnur ríki; tíðni nýsmita, hörkustig aðgerða, mælt í dauðsföllum. Þetta er gert á ýmsa mælikvarða víðs vegar hér í Evrópu. Það er alveg sama hvaða mælikvarði er notaður, við erum að skora hæst eða með þeim hæstu á þeim öllum. Auðvitað hefur kannski eitthvað orkað tvímælis og menn geta spurt sem svo: Af hverju þetta en ekki hitt? Og mönnum gæti einhvers staðar þótt skorta á rökrétt samhengi hlutanna. En í öllum aðalatriðum hefur þetta gengið mjög vel. Helst er þó yfir að kvarta hvernig til tókst með pöntun og afgreiðslu á bóluefnum í samstarfi við Evrópusambandið en ég get upplýst það hér að ég hef rökstuddan grun um að það standi til bóta alveg á næstunni.

Sama er að segja um ráðstafanir í efnahagsmálum, það hefur allt gengið eftir. Flestar ef ekki allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa náð eða eru að ná tilætluðum árangri með örfáum undantekningum. Varðandi efnahagsmálin getum við svo glaðst yfir fleiru. Ríkisstjórnin og við hér í þinginu bárum gæfu til þess fyrir nokkrum vikum að auka á það fé sem ætlað er til loðnurannsókna um smávægilega upphæð í því samhengi að nú stefnir í að við getum (Forseti hringir.) fengið loðnuvertíð upp á 20–30 milljarða eftir tvö loðnulaus ár. Með öðrum orðum: Það er rík ástæða til að gleðjast (Forseti hringir.) og fagna ýmsum jákvæðum merkjum sem við horfum á þessa daga.