151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:41]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða gott mál sem við í Samfylkingunni styðjum og höfum stutt og hefðum alveg viljað sjá samþykkt fyrr hér á Alþingi. Það stóð ekki á okkur og það mega þau vita sem standa fyrir þessu máli að hefðum við verið með þeim í stjórn þá væri þetta mál löngu komið í gegn. En það hefur sumsé strandað á öðrum en okkur.

Nú fer málið til allsherjar- og menntamálanefndar og þar munum við sem sitjum í þeirri hv. nefnd rýna það betur. Meðal þess sem ég mun alla vega halda á lofti í þeirri vinnu er að ég vil reyna að endurheimta hluti sem voru í fyrri stigum þessa máls, voru í fyrri frumvörpum en mér sýnast hafa horfið. Það er varðandi skilyrði fyrir rekstrarstuðningi. Í 62. gr. eru talin upp nokkur skilyrði fyrir rekstrarstuðningi. Það snýst um að fjölmiðlar skuli hafa starfað með leyfi frá fjölmiðlanefnd óslitið í 12 mánuði eða lengur, vera skráðir og hafa leyfi, það séu a.m.k. þrír starfsmenn og staðið skil á skýrslum til fjölmiðlanefndar og ekki sé um vanskil að ræða, hvorki á launum né opinberum gjöldum og að fjármál séu í lagi.

En í fyrra frumvarpi voru skilyrðin nokkuð ítarlegri og mér þóttu þau góð og skynsamleg. Þar er til að mynda talað um í d-lið að aðalmarkmið prent- og netmiðla skuli vera miðlun frétta, fréttatengds efnis og umfjöllun um samfélagsleg málefni. Hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar skuli miðla frá sjálfstæðri fréttastofu daglega nýjum fréttum eða fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni. Efni sem birtist í fjölmiðli skuli vera fjölbreytt og ætlað fyrir almenning á Íslandi. Þetta finnst mér vera skilyrði sem er skynsamlegt og sjálfsagt og eðlilegt að við förum fram á slíkt þegar um er að ræða opinberan stuðning við starfsemi fjölmiðils. Ritstjórnarefni skal að lágmarki vera 40% af því efni sem birtist í prentmiðlum og netmiðlum og sömu skilyrði eiga við um staðbundna prent- og netmiðla, en áskilið er að minnst helmingur ritstjórnarefnis varði útbreiðslusvæði miðilsins með beinum eða óbeinum hætti. Þetta þykir mér líka vera skynsamlegt. Svo er líka talað um að einn sjötti hluti, ritstjórnarefni sem birtist í prent- og netmiðlum skuli byggjast á sjálfstæðri frétta- og heimildaöflun. Þarna eru gerð skilyrði um ákveðin fagleg vinnubrögð, fagleg blaðamennskuleg vinnubrögð. Ég kem kannski betur að því hér á eftir.

Loks er hér eitt sem mér sýnist að hafa farið forgörðum þegar fjallað er um markmið frumvarpsins. Hér er talað um að markmiðið sé að koma til móts við einkarekna fjölmiðla til að jafna stöðu íslenskra fjölmiðla gagnvart erlendum auglýsingaveitum og samfélagsmiðlum, sem er ágætt markmið. En áður var talað um að styðja skuli við og efla útgáfu í fréttum fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni auk þess að styðja við málstefnu stjórnvalda með því að veita einkareknum fjölmiðlum tímabundinn stuðning í formi endurgreiðslu á hluta kostnaðar sem fellur til við að afla og miðla slíku efni. Ég myndi alveg vilja endurheimta þessa tilvísun til málstefnu stjórnvalda. Við þurfum ekkert að vera feimin við það.

En auðvitað snýst þetta fyrst og fremst um að styrkja stöðu fjölmiðla á válegum og viðsjárverðum tímum þar sem fjölmiðlar gegna kannski mikilvægara hlutverki en þeir hafa nokkru sinni gert í því að veita almenningi aðgang að traustum upplýsingum svo að almenningur geti myndað sér skoðanir á traustum grunni en ekki á grundvelli tröllasagna eða á grundvelli lyga.

Þetta er aldeilis ekki nýtt. Þegar ég var að velta þessum málum fyrir mér í gær rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði einu sinni lesið ágæt skrif eftir Jón Ólafsson ritstjóra, sem var einn af frumkvöðlum íslenskrar blaðamennsku, og má kannski nefna hann í einhverjum skilningi föður nútímablaðamennsku hér á landi. Árið 1870 skrifar Jón Ólafsson eiginlega greinargerð fyrir frjálsri blaðamennsku í blað sem hann ritstýrði þá. Það blað hét Baldur. Þess má geta til gamans að Jón Ólafsson var þá tvítugur að aldri, prestssonur frá Kolfreyjustað. Hann skrifar m.a.:

„Blaðamaður verður að fylgja því, er hann ætlar sannast og réttast, án þess að láta það aftra sér, þó alþýða hafi annað álit. Blöðin eiga ekki að vera eins og lúður, er hver sem vill getur básúnað í. Með einu orði, blaðamaður á að vera ráðgjafi lýðsins.“

Þetta finnst mér skemmtilegt orðalag og mér finnst þetta vera í fullu gildi. Það er kannski ekki síst hlutverk fjölmiðla að vera ráðgjafi lýðsins, og er þá náttúrlega orðið lýður notað í sömu merkingu og við höfum í orðinu lýðræði, þ.e. alþýða manna, almenningur, fólk.

Hann skrifar líka:

„Sjerlega athugaverð er staða blaðanna andspænis fulltrúum þjóðarinnar, þar sem fulltrúaþing eru.“ — Athugið að hann skrifar þetta 1870 þegar Íslendingar höfðu slíkt. — „Þá er blöðin hafa fasta stefnu og fylgja henni fram á sæmilegan hátt, þá mega þau ávallt ganga að því vísu, að fulltrúar þjóðarinnar gefi orðum þeirra hæfilegan gaum.

Köllun blaðamannsins er því háleit og fögur, og menn gætu sagt, eitt hið háleitasta og fegursta sem nokkur maður getur tekið sjer fyrir hendur að starfa að. En því æðri, fegurri, helgari og háleitari sem sú köllun er, því meiri vandi og ábyrgðarhluti er henni samfara.“

Ég get ekki stillt mig um að halda hér aðeins áfram og vísa í það sem Jón Ólafsson segir um köllun blaðamannsins 1870, með leyfi forseta:

„Hann má aldrei tala þvert um huga sjer, og eigi láta hræða sig frá sannfæring sinni, því að hennar má hann aldrei ganga á bak, þótt það gildi líf hans og mannorð, fje og fjör. Hann má því eigi láta það aftra sér, þótt alþýðuhylli hans liggi við, því sannleikurinn er meira verður; hann má eigi óttast það, þótt hann sjái, að sannleiksást hans gjöri vini hans að óvinum hans, og eigi óttast óvild manna, því að sannleikurinn er meira verður; hann má eigi þegja yfir sannleikanum, eða gjöra móti betri vitund til að geðjast öðrum, hvort sem þeir eru háir eða lágir, því sannleikurinn er meira verður.“

Þannig skrifaði Jón Ólafsson 1870 og þetta er í fullu gildi og minnir okkur á að það að vera blaðamaður er hugsjón. Að vera blaðamaður eða fréttamaður á slíkum miðli er lífsskoðun í sjálfu sér. Blaðamaðurinn fylgir ekki þessum flokki eða hinum flokki að málum, þessari trú eða hinni, þessari lífsskoðun eða annarri. Hann fylgir köllun sinni sem er köllun blaðamennskunnar; að leita sannleikans og vitna um sannleikann og skýra frá því sem blaðamaðurinn telur sannast og réttast í hverju máli. Það er mjög mikilsvert að fólk geti stundað þessa iðju í friði fyrir pólitískum öflum og í friði fyrir fjármálaöflum og þannig að það sé einungis að þjónusta almenning.

Ég held að það fari ekkert á milli mála að mikilvægi fjölmiðla fyrir lýðræðislega umræðu, fjölmiðla í samfélagi sem er fjölradda samfélag, einkennist af fjölmenningu, opið fjölradda samfélag, hefur aldrei verið mikilvægara.

Fyrir utan það sem ég nefndi fyrr í ræðu minni um skilyrði sem ég myndi vilja sjá bætast við í vinnu hv. allsherjar- og menntamálanefndar, þá langar mig að orða það, það er kannski meira spurning sem ég varpa fram, hvort ástæða kunni að vera til þess að í þessum skilyrðum sé reynt að koma orðum að því að viðkomandi fjölmiðlar haldi í heiðri siðareglur blaðamanna. Blaðamennska er ákveðið fag. Blaðamenn eru ákveðin stétt og blaðamenn hafa með sér sinn félagsskap sem hefur komið sér saman um að starfa eftir tilteknum siðareglum sem allir blaðamenn, sem vilja rísa undir því nafni, þurfa að halda í heiðri. Ég ætla ekki að rekja þær siðareglur hér, en þær eru nokkuð í anda þess sem ég rakti hér af skrifum Jóns Ólafssonar frá 1870.

Að blaðamenn aðhyllist þessar siðareglur tryggir ákveðin gæði á því efni sem frá viðkomandi fjölmiðli kemur. Það tryggir að þeir sem nota viðkomandi fjölmiðla geta treyst því að þarna er því miðlað sem vitað er sannast og réttast. Við vitum að það er mikil og umfangsmikil starfsemi í heiminum sem snýst um lygar, snýst um rangar upplýsingar, snýst um miðlun á tröllasögum og skröksögum og beinum lygum og það er í þjónustu tiltekinna afla sem vilja annaðhvort efla völd sín sem þau hafa eða ná völdum. Það gera margir tilkall til þess að geta notað heiðursheitið blaðamaður og fréttamaður, en það eru ekki allir sem rísa undir því. Þeir einir rísa undir þeim titli sem starfa eftir þessum siðareglum sem blaðamenn hafa gert með sér og eru reyndar líka í gildi hjá stofnun eins og Ríkisútvarpinu.

Áður en ég hætti vil ég nefna sérstaklega héraðsfréttamiðla. Það er ákaflega mikilvægt að þeir geti haldið áfram starfsemi í sínum héruðum. Við þurfum að búa svo um hnútana að skilyrðin verði ekki of óvægin um til að mynda útgáfutíðni og því um líkt, þannig að slík starfsemi verði styrkt.

Ég sé að ég er að verða búinn með tímann þó að ýmislegt sé ósagt. Við eigum eftir að vinna þetta mál í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og ég hlakka til að taka þátt í þeirri vinnu og geri mér vonir um að við náum að skila einhuga úr þeirri vinnu betra og vænlegra frumvarpi.