151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:56]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingar á lögum um fjölmiðla sem sett voru hér á hinu háa Alþingi árið 2011. Þau hafa tekið einhverjum breytingum og hér liggur fyrir frumvarp til breytinga á þessum lögum sem lúta að stuðningi við einkarekna fjölmiðla. Það er svar við kalli tímans, svar við breytingum í samfélaginu og mikilli þörf á því að við styrkjum hið talaða og ritaða orð. Þetta frumvarp hefur verið í deiglunni um hríð og birtist okkur nú um síðir, nokkuð rýrara að vísu en efni stóðu til og það er ekki gott. En þessa frumvarps er beðið og það á brýnt erindi. Þetta frumvarp og efni þess styðjum við í Samfylkingunni fullum fetum þó að það verði nú að fylgja með að það liti eflaust að einhverju leyti öðruvísi út ef við hefðum fengið að vera við það borð þar sem það var skrifað. Hagsmunaaðilar í fjölmiðlaheiminum eru margir, sumir öflugir sem þrýstihópur, umvafinn flokkspólitískri velvild og vernd sem raunar tekur út yfir allan þjófabálk.

Ég mun í ræðu minni staldra mest við smærri fjölmiðlana og þá einkum fjölmiðla sem starfa á landsbyggðinni. Þeir sitja ekki við sama borð, búa við skarðan hlut í sínu gilda hlutverki. Það er næsta víst að hagsmunir þeirra hafa orðið undir við gerð þessa frumvarps. Búið er að gera veigamiklar breytingar eins og hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson reifaði ágætlega í sinni ræðu. Það er búið að taka út skilyrði, t.d. um útgáfutíðni, og þannig hleypa fleiri miðlum að þessum rekstrarstuðningi, potti sem ekkert hefur stækkað. Hann er 400 millj. kr. að meðtöldum öllum þeim kostnaði sem felst í úrvinnslu umsókna og þóknunar vegna starfa úthlutunarnefndar. En sá sem á mestra hagsmuna að gæta í bráð og lengd í þessu máli er auðvitað þjóðin, öll þjóðin sem þarf og á að hafa greiðan og góðan aðgang að áreiðanlegum og upplýstum fjölmiðlum. Það á við um landsmenn alla.

Hefðbundinn rekstrargrundvöllur flestra einkarekinna fjölmiðla, a.m.k. minni fjölmiðla á landsbyggðinni, virðist nánast brostinn. Ástæðurnar eru nokkrar. Það hafa orðið gríðarlegar tæknibreytingar á allra síðustu árum, auglýsingatekjur hefðbundinna fréttablaða hafa dregist saman og færst annað. Fyrirtæki eru farin að haga markaðssetningu með fjölbreytilegri hætti og með öðrum brag. Erlendar efnisveitur eru að verða æ stórtækari á innlendum samkeppnismarkaði fjölmiðla og miðlunaraðferðirnar eru orðnar af öllu tagi. Auglýsingaviðskipti færast stöðugt meira til erlendra stórfyrirtækja á kostnað hefðbundinna einkarekinna fjölmiðla. Þeir bera skarðan hlut frá borði í auglýsingatekjum sínum, svo jaðrar við hrun.

Herra forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hér á vettvangi Alþingis hversu dýrmætu hlutverki fjölmiðlar gegna í lýðræðissamfélagi. Þeir flytja fréttir af líðandi stund nær og fjær og eru vettvangur fjölbreyttra skoðanaskipta um dægurmál og þjóðfélagslega mikilvæg mál á hverjum tíma og stuðla þannig, með miðlun sinni, að opinni og upplýstri umræðu og aukinni þekkingu á samfélaginu, þátttöku og ábyrgð sem hvert einasta velferðarsamfélag þarf á að halda og reisir sitt skipulag á, lýðræðislegum kosningum sem dæmi. Þeir rýna og þeir upplýsa. Það skiptir máli hvort sem eiga í hlut staðbundnir miðlar eða stærri fjölmiðlar sem telja sig hafa allt landið undir, eða veröldina þess vegna.

Breytingar á umhverfi fjölmiðla geta þannig haft gríðarleg bein áhrif. Því verður gildi fréttamiðlunar óháðra og frjálsra einkarekinna fjölmiðla seint ofmetið. Þá hefur ekki verið nefnt atriði sem einkareknir fjölmiðlar gegna með meiru, en það er meðferð íslenskrar tungu. Þar hafa fjölmiðlar jafnframt þýðingarmiklu hlutverki að gegna, að standa vörð um, viðhalda, efla og vernda íslenska tungu sem á stöðugt meira undir högg að sækja.

Herra forseti. Með því frumvarpi sem hér er lagt fram er Ísland síður en svo að feta nýja eða óþekkta slóð. Ísland sem náinn bandamaður Norðurlanda og almennt annarra Evrópuþjóða þekkir til þess að þar eru nágrannar okkar alveg á sömu slóðum. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson reifaði það m.a. í sinni ræðu. Aðgerðir stjórnvalda víða um heim, einkum þó í Evrópu, hafa í ljósi mikilvægis fyrir lýðræði og menningu fyrst og fremst haft það sem yfirlýst markmið að leitast við að tryggja rekstrarumhverfi fjölbreyttra fjölmiðla og það eigum við sannarlega að gera líka eftir því sem okkur er nokkur kostur í hinu smáa samfélagi sem viðgengst á Íslandi.

Stóru fjölmiðlarnir á höfuðborgarsvæðinu hafa fengið mikið rými í umræðunni og samkvæmt frumvarpinu fá þeir líka bróðurpartinn af þeim stuðningi sem í boði er. Mér er hins vegar mest umhugað um fjölmiðlana á landsbyggðinni og þeirra hlutskipti. Þar er ég best heima og ég veit hve þýðingarmiklu hlutverki þeir gegna. Ég veit líka um þann lífróður sem útgefendur róa. Úthald þeirra er ekki ótakmarkað og ef þá þrýtur örendið verður erfitt að snúa til baka. Enn er rifa á glugganum. Við höfum enn tækifæri til að sporna við og það skulum við gera.

Já, fjölmiðlar í dreifbýli hafa þýðingarmiklu hlutverki að gegna, bæði staðbundnu og á landsvísu. Þeir eru gjarnan eins konar gátt inn í samfélag sem fjölda fólks er ella eins og lokuð bók, þeim sem ekki búa á viðkomandi svæðum en vildu gjarnan fylgjast með þeim hræringum sem þar eiga sér stað. Þrátt fyrir umrót og nýja tækni gegna þeir enn mikilvægum verkefnum sem frétta- og menningarmiðlar og að vera kynningarvettvangur á sínu svæði. Þeir draga fram sérstöðu í byggðunum, halda á stundum uppi vörnum fyrir svæðisbundin hagsmunamál sem varða miklu. Þessir fjölmiðlar eiga á brattann að sækja. Héraðsfréttablöðin sem flest ef ekki öll halda samhliða úti vefútgáfum eru eftir atvikum ekki endilega áskriftarblöð. Þau eru þá háð dreifingaraðilum í pappírsforminu og þetta er einn af hinum veigamiklu útgjaldaþáttum í starfseminni og rekstrinum og það er sjálfstætt umhugsunarefni að koma prentuðu efni í hendur lesenda, í hendur áskrifenda.

En ekki má gleyma því að til umfjöllunar er ekki bara ritmál og vefútgáfur. Við eigum líka ágæta sjónvarpsstöð og sjónvarpsstöðvar og ein þeirra er starfrækt á landsbyggðinni, N4 sem staðsett er á Akureyri og rækir hlutverk sitt með sóma. Þar er að finna þáttagerð af ýmsu tagi, fréttatengt efni, fróðleik, samfélagslega umfjöllun og afþreyingu af landsbyggðinni, ekki bara úr Eyjafirði heldur líka Austfjörðum, Vesturlandi og Vestfjörðum, af landsbyggðinni hvarvetna en róðurinn í rekstrinum er erfiður eins og almennt er í fjölmiðlarekstri á Íslandi.

Herra forseti. Einkareknir, hlutlausir og gagnlegir fjölmiðlar á landsbyggðinni eru komnir að fótum fram og hættan er sú að þeir leggi upp laupana á næstu mánuðum og misserum verði ekki að þeim hlúð. Það yrði að mínu mati áfall og hörmuleg tilhugsun öllum þeim sem unna hinu frjálsa orði. Þarna er um hagsmuni og sérstöðu landsbyggðar og íbúa þar að ræða en það er líka hagur allra landsmanna að þessir miðlar hverfi ekki af markaði en fái að dafna í sínu hlutverki og á sínum forsendum. Til þess þarf að líta með skilningi og sérstöðu, á mikilvægi þeirra.

Það eru nokkur atriði sem koma upp í hugann og eru umhugsunarefni. Sem dæmi: Dreifbýlisfjölmiðlar eins og aðrir reiða sig á birtingu auglýsinga í sínum rekstri. Stöðugt verður þyngra undir fæti í þeim efnum. Fyrirtæki og stofnanir í samfélaginu hafa í sinni þjónustu auglýsingastofur sem meta blákalt hvar helst er að vænta hámarksávinnings af birtingu samkvæmt strípuðum og þaulhugsuðum útfærslum. Þar er dansinn í kringum gullkálfinn fumlaus og taktfastur. Héraðsfréttablöðin eru ekki endilega þar efst á blaði. Gildi birtingar í héraðsfréttablöðum er reyndar oft stórlega vanmetið því þau eru víðlesin langt umfram sitt skilgreinda og hefðbundna upprunalega útgáfusvæði.

Síðan má benda á það að fjölmiðlamenn á landsbyggðinni eru sömuleiðis mjög hugsi og reyndar verulega ósáttir við almenna stefnu opinberra stofnana eins og ríkisskattstjóra, ráðuneyta, heilbrigðisstofnana, skóla og annarra opinberra stofnana gagnvart auglýsingum í staðarmiðlun til að ná til þorra landsmanna. Allt of mikið er um að slíkar stofnanir, sérstaklega stofnanir í Reykjavík, sem samt eiga að þjóna öllum landsmönnum, auglýsi einvörðungu í dagblöðum sem eru margfalt minna lesin á landsbyggðinni en staðbundnir fjölmiðlar. Íbúar á landsbyggðinni fara af þeim sökum jafnvel á mis við opinberar upplýsingar sem allir ættu að hafa jafnan aðgang að. Dagblöðin eru í dag, eins og landsbyggðarútgefendur orða það, fyrst og fremst héraðsfréttablöð höfuðborgarsvæðisins og útbreiðsla margra þeirra á landsbyggðinni er takmörkuð að þeirra mati.

Á það hefur verið bent og um það fjallað í ræðu og riti, m.a. hér á hinu háa Alþingi, að auka þurfi gegnsæi eignarhalds á fjölmiðlum og koma í veg fyrir samþjöppun eins og átt hefur sér stað á nýliðnum árum og við þekkjum átakanleg dæmi um að jafnvel sjávarútvegsfyrirtæki haldi úti ósjálfbærum stórum fjölmiðli í eiginhagsmunaskyni með markvissum hætti. Æ fleiri miðlar eru nú í beinu eða óbeinu eignarhaldi fjármálaafla, fjárfesta eða stórra fyrirtækja á sínu starfssvæði eða á landsvísu. Það er líka háskaleg þróun.

Virðulegur forseti. Stoðir dreifbýlisfjölmiðla eru veikar. Útgefendur einkarekinna hlutlausra og gagnlegra fjölmiðla á landsbyggðinni eru orðnir göngumóðir. Það er að mínu áliti hagur íbúa á landsbyggðinni og þar með hagur allra landsmanna að þeir hverfi ekki af markaði. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á þessu frumvarpi sem hér er til 1. umr. frá því að upphaflega var farið af stað í þessa vegferð munu þýða að áfram fá þrjár stærstu blokkirnar í útgáfustarfsemi upp undir 70% af þeim fjármunum sem ráðstafað er í þetta stuðningsúrræði. Smærri miðlarnir munu auk þess þurfa að gefa eftir af sínum hlut til miðla sem eru nú viðurkenndir inn í þetta kerfi vegna losaralegri skilyrða sem smeygt var inn á lokastigum. Með tilliti til breytinganna og ef vel ætti að vera þyrfti því að stækka pottinn svokallaða um u.þ.b. 100 milljónir, hann er 400 milljónir í dag, og ég varpa þeirri spurningu til ráðherra hvort það sé á dagskrá, hvort það sé vilji til að stíga þannig skref og rétta af kúrsinn. Annar kostur er sá að lækka þakið sem stóru fjölmiðlarnir geta fengið hver fyrir sig. Það er 25% en væri ekki óraunhæft að miða við t.d. 20%.

Herra forseti. Ef stjórnvöld vilja leggja sitt af mörkum til að tryggja áfram lýðræðisþróun og samfélagsumræðu og valdeflingu í gegnum einkarekna landsbyggðarfjölmiðla styð ég eindregið að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra gefi hvergi eftir og sjái til þess að stuðningur við einkarekna og ekki síst minni landsbyggðarfjölmiðla verði aukinn en ekki rýrður, aftur bætt í eins og upphaflega var gert ráð fyrir og með því skotið styrkari stoðum undir blómlega og metnaðarfulla fjölmiðlun úr öllum kimum samfélagsins.