151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:44]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Staða fjölmiðla er okkur öllum ljós. Þeir standa höllum fæti og grundvöllur áskriftarmódela fyrri tíma hrundi, eins og við öll þekkjum, með tilkomu internetsins. Síðan þá virðist hið gjaldfrjálsa opna módel, sem á fyrst og fremst að byggjast á auglýsingatekjum, ekki heldur að hafa dugað til, við þekkjum þetta. Að vissu leyti má segja að einkareknir fjölmiðlar hafi frá tilkomu netsins þurft að vera í stanslausri tilraunastarfsemi til að halda velli og við þessu er verið að bregðast. Það er nefnilega þannig að á sama tíma og þetta er staðreynd, að hér hrundi viðskiptamódel fjölmiðla með tilkomu netsins án þess að á síðustu áratugum hafi tekist að leggja fram nýtt, þá er mikilvægi fjölmiðla fyrir samfélagið okkar öllum ljós og hefur sjaldan verið meira.

Hér á landi stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd að við höfum fallið jafnt og þétt niður lista blaðamanna án landamæra þar sem fjölmiðlafrelsi í löndum heimsins er metið. Hin Norðurlöndin skipa sér í fjögur efstu sætin en Ísland hefur fallið niður um fimm sæti á tveimur árum og situr í því 15. Nú má vel segja að 15. sæti í samfélagi þjóða sé ekki svo slæmt. Við erum einfaldlega vön öðru og betra. Við erum ekki vön að vera slíkur eftirbátur vina okkar á öðrum Norðurlöndum sem hér sést. Við erum ekki vön að sætta okkur við svona stöðu og það er engin ástæða til þess. Í falli Íslands á þessum lista yfir fjölmiðlafrelsi vega þyngst samskipti fjölmiðla og ráðandi stjórnmálaafla hverju sinni.

Í þessu ljósi er seinagangur menntamálaráðherra með þetta frumvarp einstaklega alvarlegur. Markmið frumvarpsins sem við ræðum hér, um stuðning við einkarekna fjölmiðla, er mikilvægt og það er gott. Markmiðið er að efla þá og gera þeim betur kleift að sinna hlutverki sínu í nútímalýðræðissamfélagi. Þær breytingar sem lagðar eru fram í frumvarpinu að þessu markmiði eru vissulega þess eðlis að þær þarf að ræða og það hefur verið gert hér í þingsal. Of lengi, segja sumir, og ég veit að allsherjar- og menntamálanefnd mun taka þetta til gaumgæfilegrar athugunar, þ.e. þar sem gert er ráð fyrir að ríkið veiti styrki sem miðist við allt að 25% af kostnaði viðkomandi fjölmiðils við öflun og miðlun frétta, fréttatengds efnis og umfjöllun um samfélagsleg málefni hér á landi. Samkvæmt frumvarpinu getur kostnaður ríkisins vegna þessara breytinga numið allt að 400 millj. kr.

Þegar litið er til annarra Norðurlanda er stuðningur við fjölmiðla þar með mismunandi sniði. Í Noregi nýtur stærsti fjölmiðill á hverju svæði t.d. ekki stuðnings, þ.e. stærsti fjölmiðill á hverju skilgreindu svæði fær ekki stuðning. Í Finnlandi skiptast styrkir annars vegar í nýsköpunar- og rannsóknarstyrki og hins vegar í stuðning til prent- og netmiðla sem eru þá gefnir út á tungumálum minnihlutahópa. Þrátt fyrir þetta fyrirkomulag er Finnland í öðru sæti á lista blaðamanna án landamæra þar sem fjallað er um fjölmiðlafrelsi. Við getum því engan veginn dregið þá ályktun beint að það sé slíkt beint og sterkt samhengi á milli víðtæks opinbers stuðningskerfis og frelsis fjölmiðla.

En það sem sameinar þessi stuðningskerfi, þessi ólíku stuðningskerfi annarra Norðurlanda, er nýsköpunarstuðningurinn, stuðningur sem er ekki bundinn öflun og miðlun efnis heldur miðar að því að koma á fót nýjum fjölmiðlum eða þróa nýja þjónustu, nýjar lausnir og nýjar framleiðsluaðferðir. Mér finnst að frumvarp þetta, frumvarp hæstv. ráðherra, hefði mátt koma slíku kerfi á líka í stað þess að binda allan stuðninginn við öflun og miðlun efnis. Það er í framleiðslunni, það er í þróuninni á lausnum við að koma efni á framfæri sem mest þróun hefur orðið undanfarið og er jafnvel ástæðan fyrir þeirri stöðu sem við erum í þannig að hér er kærkomið tækifæri fyrir okkur við vinnslu þessa frumvarps að færa okkur ofar á listann þar og reyna að tryggja að fjölmiðlaumhverfi framtíðarinnar verði í takt við tímann og í takt við það sem gerist í öðrum löndum hvað þetta varðar.

Það er jákvætt að búið sé að fella brott markmið um stuðning við málstefnu stjórnvalda sem var að finna í fyrri útgáfu frumvarpsins. Með fullri virðingu fyrir mikilvægi málstefnu alla jafna þá er ég þeirrar skoðunar að slíkar kvaðir hefðu aukið matskennt vald stjórnvalda til að hlutast til um hvernig þessum stuðningi er skipt á fjölmiðla. Það hefði líka að mínu mati unnið gegn hagsmunum minnihlutahópa á Íslandi og þeirra fjölmiðla sem gefa út efni á öðrum tungumálum en íslensku og fyrir þetta vil ég hrósa hæstv. ráðherra. Við þurfum sannarlega ekki á því að halda að auka tækifæri stjórnvalda til að hafa áhrif á fjölmiðla.

Með stuðningskerfi því sem hér er verið að vinna að því að koma á fót er opnað á möguleika til að rekstrarhæfi fjölmiðla verði háð velvild ríkisstjórnarinnar, velvild stjórnvalda á hverjum tíma og það er full ástæða til að gjalda varhuga við því. Það er brýnt, verði þetta frumvarp samþykkt, að koma í veg fyrir slík ítök stjórnvalda í fjölmiðlun.

Ég legg til að við 2. gr. frumvarpsins verði bætt ákvæði um að opinber stuðningur skuli á engan hátt vinna gegn tjáningarfrelsi fjölmiðla eða sjálfstæði þeirra. Þetta er einfaldlega eðlilegur varnagli og ég trúi ekki öðru en að hæstv. ráðherra, hv. allsherjar- og menntamálanefnd og þingheimur allur taki undir með mér í þeim efnum. Þetta er vissulega ekki trygging fyrir því að svo verði ekki en að hafa þetta þarna, klippt og skorið, eykur og styrkir vörnina fyrir slíkum ítökum.

Líkt og ég nefndi í upphafi hefur rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla breyst mikið á liðnum árum. Það koma margar breytur til. Ein þeirra er klárlega auglýsingamarkaðurinn og staða alþjóðlegra risa á netinu hvað þetta varðar. Það hefur þyngt róðurinn. Á því leikur enginn vafi. Ýmsir þingmenn hafa komið hér á undan mér inn á stöðuna sem er sérstaklega slæm núna í ljósi kórónuveirufaraldursins og ég ætla ekki að orðlengja það neitt frekar. Það liggur í augum uppi. Þess vegna hafa stjórnvöld, sem betur fer, hlutast til um sértækan stuðning þótt deila megi um hversu langt hann hafi náð. En við þurfum að gæta þess hér að vera að tjalda til lengri tíma en þeirra spora sem kórónuveirufaraldurinn markar í umhverfið.

Staðan fyrir er sú að RÚV er auðvitað í ákveðinni yfirburðastöðu, Ríkisútvarpið, rekið bæði á fjárframlögum og með miklar tekjur af auglýsingamarkaði. Það er ekki nýtt. Það er mín skoðun að vandaður, innlendur, ríkisrekinn fréttamiðill sé af hinu góða. Það felst hins vegar ekki í þeirri skoðun að ég samþykki endilega þær leikreglur á markaði að einkareknir, innlendir fjölmiðlar eigi þar með sjálfkrafa erfitt uppdráttar. Þess vegna hefði að mínu mati verið eðlilegt að ræða báða þætti þessa máls samhliða, að græða það sár sem við horfum öll á á íslenskum fjölmiðlamarkaði frekar en að setja á það plástur. Við eigum vel að geta skapað þá umgjörð að hér geti starfað saman ríkisrekinn miðill og sjálfstæðir miðlar. Það er því miður lítið hald í þeim orðum menntamálaráðherra að hún vilji sjá einhverjar breytingar, breytingar sem ekki eru nægilega útlistaðar og eiginlega ekki neitt útlistað hvernig eigi að vera, breytingar sem ekki hefur verið reynt að koma á allt þetta kjörtímabil. Það þarf meira til en almennar yfirlýsingar um einhvern vilja frá þeim sem fer með völdin. Við hin höfum fátt annað en sá sem fer með völdin á að nýta þau til þess að leggja til sinn vilja í þessu máli. Það hefur vantað upp á að samhliða umræðu um þetta frumvarp fáum við að sjá í raun og sann hver sýn ríkisstjórnarinnar, menntamálaráðherra þar með talinn, er á íslenskt fjölmiðlaumhverfi, bæði ríkisrekna miðilsins okkar og hinna einkareknu. Þetta fer saman. Við erum bara með einn fjölmiðlamarkað.

En svo litið sé aftur á stöðu einkareknu fjölmiðlanna þá tel ég þá leið að styðja við þá með styrkjum eðlilega í ljósi grundvallarhlutverks þeirra í lýðræðissamfélagi með það að markmiði að efla og styrkja lifandi og virka innlenda fjölmiðlaflóru. Við þurfum að gera kröfur til fjölmiðla og auðvitað þarf að setja einhverjar girðingar á hvernig þetta er gert. Á sama tíma hvílir sú ábyrgð á okkur, þegar við göngum frá þessum lögum, að tryggja að styrkirnir komi raunverulega að gagni og gagnið felst í því að tryggja frjálsa sterka fjölmiðlun, ekkert annað. Og við þurfum að tryggja, og það er hluti af þessu markmiði, það verður að vera hluti af þessu markmiði, að stuðningurinn fari raunverulega til þeirra fjölmiðla sem þurfi á honum að halda.

Frú forseti. Ég veit að hv. allsherjar- og menntamálanefnd mun taka þetta mál faglegum tökum, taka tillit til þeirra fjölmörgu sjónarmiða sem viðruð hafa verið hér í umræðunni og sjónarmiða fjölmargra hagsmunaaðila, listinn er nær endalaus, á sama tíma og hún mun vinna hratt og vel vegna þess að það er orðið brýnt til að það komist einhver mynd á það umhverfi sem við sköpum fjölmiðlum hér á landi.