152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:01]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Í 58. gr. þingskapalaga segir að í allt að hálftíma á fyrir fram ákveðnum þingfundum að jafnaði tvisvar í hverri starfsviku, geti forseti heimilað þingmönnum að bera fram munnlegar fyrirspurnir til ráðherra án nokkurs fyrirvara. Forsætisráðherra skal fyrir kl. 12 á hádegi undanfarandi föstudag tilkynna forseta hvaða ráðherrar að jafnaði, eigi færri en þrír, verði til svara á þingfundum í næstu viku.

Virðulegur forseti. Við höfum áður rætt fjarveru ráðherra hér í þingsal, en nú ber svo við að það eru heimssögulegir viðburðir í gangi sem varða alla íbúa jarðarinnar, en líka á margvíslegan hátt almenning á Íslandi. Á morgun háttar svo til að einungis tveir af 12 ráðherrum í ríkisstjórn Íslands treysta sér til að mæta hér við óundirbúinn fyrirspurnatíma. Það sætir furðu á slíkum tímum að ekki skuli fleiri treysta sér til að koma hingað og svara þingmönnum og spurningum þeirra.